18. október 2022 Orkuskipti.is opnuð Samtök iðnaðarins, Landsvirkjun, Samorka og Efla opnuðu í dag nýjan upplýsingavef https://orkuskipti.is/ á opnum fundi í Kaldalóni í Hörpu. Á vefnum eru aðgengilegar upplýsingar um orkunotkun, orkuskipti og efnahagslegan ávinning Íslands af orkuskiptum. Ný greining Eflu um efnahagsleg áhrif orkuskipta var einnig kynnt á fundinum. Efnahagsleg áhrif orkuskipta-HelstuNiðurstöðurDownload Helstu punktar: Markmið stjórnvalda er að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum árið 2040 og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja. Orkuskipti eru nauðsynleg til að ná þessum markmiðum og stuðla um leið að auknu orkuöryggi og orkusjálfstæði Íslands. Orkuskipti ganga út á að hætta að nota óendurnýjanlega orkugjafa eins og olíu og nota þess í stað endurnýjanlega orkugjafa eins og vatn, jarðvarma, vind og sól. Ísland notar um milljón tonn af olíu árlega sem kostar um 100 milljarða króna sem jafngildir verðmæti alls afla úr sjó við Ísland í 6 mánuði. Af innfluttri olíu skiptist notkunin í 52% fyrir flugvélar, 26% fyrir skip, 15% fyrir stærri ökutæki og 7% fyrir bíla. Jarðhitinn er helsti orkugjafi Íslands. Um 60% af frumorkunotkuninni er heitt vatn til húshitunar, baða og annarrar neyslu. Um 25% frumorkunotkunar er raforka sem ýmist er unnin úr vatnsafli eða jarðhita. 15% frumorkunotkunar er olía. Skipting orkunotkunar Íslands án húshitunar er 60% raforka og 40% olía. Ísland telst nettó innflytjandi á orku þar sem orkuframleiðsla hér á landi dugar ekki fyrir orkunotkun. Efnahagslegur ávinningur Íslands af orkuskiptum fram til ársins 2060 getur numið 1.400 milljörðum króna sem samsvarar fjármögnun heilbrigðiskerfisins í nær 5 ár. Heildarumfang fjárfestinga í raforkukerfinu vegna orkuskipta er talið vera um 800 milljarðar króna sem samsvarar byggingu 10 nýrra Landspítala. Orkuskiptin munu draga verulega úr losun Íslands eða sem nemur 88 milljónum tonna CO2 ígilda. Verðmæti þess eru um 500 milljarðar króna. Myndir/BIG.