20. október 2021 Orkufyrirtækin gera samstarfssamning um varnir gegn netglæpum Aðildarfyrirtæki Samorku, samtök orku- og veitufyrirtækja, sem eiga aðild að netöryggisráði Samorku og norska fyrirtækið KraftCert hafa gert með sér samstarfssamning um varnir og viðbúnað fyrir netöryggi. Netöryggi er ein stærsta áskorun stjórnenda í dag og samstarfið styrkir orku- og veitufyrirtæki landsins enn frekar í baráttunni gegn stafrænum glæpum. Aðildarfyrirtæki Samorku flokkast undir mikilvæga innviði sem samfélagið allt reiðir sig á. Því er áríðandi að innan þeirra sé hugað vel að netöryggi svo hægt sé að verjast mögulegum tölvuárásum á orkukerfi landsins. Innan Samorku hefur verið starfrækt Netöryggisráð í nokkur ár sem samanstendur af sérfræðingum frá stærstu aðildarfyrirtækjum samtakanna. Með samstarfinu við KraftCert verður netöryggi styrkt enn frekar á vettvangi orkugeirans. Markmið samstarfsins er að auka áfallaþol byggt á áhættumati og áhættugreiningum sem varða net- og upplýsingaöryggi fyrirtækjanna. Samningurinn felur í sér varnir og viðbúnað gegn netglæpum og upplýsingaöryggi. Einnig felur hann í sér þjálfun, æfingar og rekstrarráðgjöf þegar kemur að netöryggi orku- og veitufyrirtækja á Íslandi. KraftCert var stofnað árið 2014 af stærstu orkufyrirtækjunum í Noregi og er sjálfstætt félag sem ekki er rekið í hagnaðarskyni. Félagið er leiðandi fyrirtæki í netöryggismálum, viðbrögðum og vörnum gegn netglæpum í heiminum. Þar að auki hefur KraftCert viðtæka sérþekkingu á netöryggi orku- og veitufyrirtækja og er því ávinningurinn á samstarfssamningum mikill fyrir íslensk orku- og veitufyrirtæki og geri þeim kleift að vera hluti af alþjóðlegu samstarfi þegar kemur að netöryggismálum.