16. október 2025 Opnun Brussel-skrifstofu formlega fagnað Samorka fagnaði opnun skrifstofu sinnar í Brussel með því að bjóða til móttöku á Norrænu orkuskrifstofunni þar sem starfsmaður Samorku hefur aðsetur. Í móttökunni voru samankomnir fulltrúar íslenskra orku- og veitufyrirtækja en einnig fulltrúar systursamtaka Samorku á hinum Norðurlöndunum og fleiri. Finnur Beck framkvæmdastjóri Samorku, Sólrún Kristjánsdóttir stjórnarformaður og Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra fluttu ávörp og lögðu áherslu á mikilvægt þess að stíga þetta skref til að hafa áhrif á stefnumótun Evrópusambandsins og gæta íslenskra hagsmuna. Löggjöf og regluverk sem upprunin er hjá ESB mótar starfsumhverfi íslenskra orku- og veitufyrirtækja því hún er að stórum hluta tekin upp íslenska löggjöf í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Samorka leggur því ríka áherslu á að að vakta vel þessa hröðu þróun, skilja hana og miðla til aðildarfyrirtækja. Það er líka mikilvægt að koma sjónarmiðum orku- og veitugeirans á framfæri, t.d. um að efla nýtingu jarðhita á evrópska vísu. Ísland er í forystu á því sviði með áratuga reynslu og þekkingu í að nýta þennan orkugjafa til húshitunar og raforkuframleiðslu.