11. ágúst 2009 Nýja Ísland? Morgunblaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar: Á dögunum voru kynnt drög að skýrslu sem unnið er að fyrir fjármálaráðuneytið, þar sem fjallað er um arðsemi af orkusölu til stóriðjufyrirtækja. Drögin voru kynnt í aðdraganda verslunarmannahelgar, nánast í skjóli hásumarleyfistímans, en þeim hafði þó verið skilað til ráðuneytisins í maí. Ekkert samband var haft við orku- né stóriðjufyrirtæki við gerð skýrsludraganna. Hér er ekki ætlunin að ræða efnislega um innihald skýrslunnar, það hefur þegar verið gert að hluta á öðrum vettvangi og verður gert nánar síðar, enda af nógu að taka. En það sem vekur ekki síst athygli er mönnun vinnunnar. Afrek í takmörkun á trúverðugleikaÁ Íslandi – líkt og sjálfsagt víðast hvar – tekur fjöldi hagfræðinga virkan þátt í opinberri umræðu um efnahagsmál. Segja má að í stórum hópi all kunnra hagfræðinga hérlendis séu um fimm til sex manns sem (mis)ítrekað hafa lýst verulegum efasemdum um arðsemi orkusölu til stóriðju. Að skýrslunni sem fjármálaráðuneytið bað um hafa komið heilir fjórir hagfræðingar, sem hlýtur að teljast all vel í lagt með svona vinnu. Sérstaka athygli vekur hins vegar að allir fjórir koma þeir úr fyrrnefndum fimm til sex manna hópi annars stórs mengis þjóðþekktra hagfræðinga. Þetta verður að teljast alveg sérstakt afrek í takmörkun á trúverðugleika. Allir hafa þessir fjórir skýrsluhöfundar áður ítrekað dregið sambærilegar ályktanir, í mis ítarlegum skrifum og erindum, og kynntar voru á dögunum í annars lítt frágengnum skýrsludrögum. Frá upphafi lá þar með algerlega ljóst fyrir hverjar þeirra helstu niðurstöður yrðu og því vandséð hví ákveðið var að ráðstafa opinberum fjármunum til þessarar vinnu. Verður kannski næst ákveðið að láta vinna skýrslu um kosti og galla loftrýmisgæslu á vegum NATO í íslenskri lofthelgi, og leitað til Samtaka hernaðarandstæðinga um gerð hennar? Er þetta það sem átt er við með hugtakinu „nýja Ísland“ í frösum opinberrar umræðu?