7. apríl 2020 Ný könnun vegna COVID-19 Rúmlega 90 prósent forsvarsmanna fyrirtækja telja að tekjur muni minnka milli annars ársfjórðungs í fyrra og sama fjórðungs í ár, vegna áhrifa COVID 19 á íslenskt atvinnulíf. Minnkun tekna er að meðaltali áætluð 50 prósent en hjá þeim sem svara að hún minnki nemur samdrátturinn tæplega 55 prósent. 80 prósent forsvarsmanna íslenskra fyrirtækja telja að tekjur muni minnka í marsmánuði á milli ára. Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu, fyrir Samtök atvinnulífsins. Tæplega 80 prósent fyrirtækja höfðu gripið til hagræðingaraðgerða vegna ástandsins og þar af var skert starfshlutfall starfsmanna algengasta aðgerðin. Þar á eftir kom niðurskurður annars rekstarkostnaðar. Uppsagnir voru tæplega 6 þúsund vegna COVID 19. Langstærstur hluti í ferðaþjónustu og flutningum. Um 24 þúsund eru komnir í skert starfshlutfall af sömu ástæðum. Sú tala er nokkuð lægri en fjöldi umsókna um hlutabætur hjá Vinnumálastofnun föstudaginn 3. apríl, en þær nema um 30 þúsund. Sá mismunur sýnir vel hversu hratt forsendur breytast frá degi til dags, en könnunin var gerð á tímabilinu 26. til 31. mars. Mest notkun hlutabótaúrræðisins er í flutningum og ferðaþjónustu, eða helmingur áformaðra skertra starfshlutfalla, en þar á eftir kemur verslun og önnur þjónusta. Forsvarsmenn fyrirtækjanna voru spurðir um hversu lengi þeir teldu að áhrif COVID-19 muni vara á rekstur fyrirtækjanna. Flestir, eða 30 prósent, töldu áhrifin vara í þrjá til fjóra mánuði og fjórðungur taldi áhrifin standa í fimm til sjö mánuði. Allmargir, eða 29 prósent, töldu áhrifin vara lengur en tíu mánuði og að meðaltími áhrifanna er áætlaður 8 mánuðir. Frekari upplýsingar og niðurbrot á svörum má sjá á síðu SA.