10. desember 2020 Látum jólin ganga Látum jólin ganga er jóla-, skemmti-, tónlistar- og viðtalsþáttur í tengslum við átakið Íslenskt – láttu það ganga sem verður í beinni útsendingu í kvöld kl. 19.35 á Stöð 2 og Vísi. Þáttastjórnendurnir Logi Bergmann Eiðsson og Sigrún Ósk Kristjánsdóttir verða á stóra sviði Borgarleikhússins og fá til sín fjölmarga gesti. Markmiðið með þættinum er að stappa stálinu í þjóðarsálina, hvetja landann til að kaupa íslenska framleiðslu, íslenska hönnun, innlendar vörur og þjónustu og þá af innlendum vefverslunum frekar en erlendum keppinautum. Þeir Fannar Sveinsson og Benedikt Valsson verða einnig á vettvangi og gera sitt allra besta til að láta hjól atvinnulífsins snúast. „Við ætlum að vera jákvæð, skemmtileg, í jólaskapi og hvetja hvert annað til að hafa keðjuverkandi áhrif og halda atvinnustarfsemi gangandi, þrátt fyrir ýmis högg á þessu ári. Maður verður nefnilega að vera léttur,” segir Logi. Þátturinn, sem Skot Productions framleiðir, er styrktur af Samtökum atvinnulífsins og aðildarfélögum sem og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Á Facebook er hægt að nálgast viðburðinn: https://www.facebook.com/events/3436548136414850