14. júlí 2020 Kristinn Ingi til CarbFix Kristinn Ingi Lárusson Kristinn Ingi Lárusson hefur verið ráðinn til Carbfix, dótturfyrirtækis Orkuveitu Reykjavíkur, þar sem hann mun leiða viðskiptaþróun,stefnumótun og markaðssókn þess á erlendri grundu Á árunum 1998 – 2005 starfaði Kristinn hjá SPRON við útlán til stærri fyrirtækja, eignastýringu og fjárfestingabankastarfsemi. Frá 2005 til 2013 var Kristinn forstöðumaður viðskiptaþróunar Símans og síðar móðurfélagsins SKIPTA. Undanfarin sjö ár hefur hann verið framkvæmdastjóri ON Waves sem er alþjóðlegt fjarskiptafyrirtæki sem þjónar skipaflotum um allan heim. Kristinn hefur jafnframt setið víða í stjórnum fyrirtækja, bæði hérlendis sem erlendis, á sviði nýsköpunar, fjarskipta og fjármála. Kristinn lauk MBA gráðu frá University of Edinburgh í Skotlandi árið 2002. Áður hafði hann lokið BS gráðu í viðskiptafræði með áherslu á markaðs- og alþjóðaviðskipti frá University of South Carolina í Bandaríkjunum. Carbfix er þekkingarfyrirtæki sem veitir ráðgjöf og þjónustu á sviði kolefnisföngunar með það að markmiði að sporna gegn loftslagsvánni. Carbfix tæknin er hagkvæm og umhverfisvæn og felst í að fanga CO2 úr útblæstri í stað þess að sleppa því út í andrúmsloftið. Í stuttu máli er CO2 breytt í stein með því að hraða ferli náttúrunnar. Vatni með uppleystu CO2 – nokkurs konar sódavatni – er dælt ofan í berglög neðanjarðar þar sem það steinrennur á innan við tveimur árum með sömu ferlum og náttúran hefur beitt í milljónir ára til að tempra styrk CO2 í andrúmslofti.