7. október 2019 Kristín Linda Árnadóttir nýr aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar Kristín Linda Árnadóttir Kristín Linda Árnadóttir hefur verið ráðin aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar. Kristín Linda hefur verið forstjóri Umhverfisstofnunar frá árinu 2008. Þar áður gegndi hún starfi sviðsstjóra lögfræði- og stjórnsýslusviðs stofnunarinnar og var staðgengill forstjóra. Hún starfaði sem lögfræðingur í umhverfisráðuneytinu á skrifstofu laga og upplýsingamála frá 1998 til 2007. Kristín Linda lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1998, meistaranámi í alþjóðlegum umhverfisfræðum (LUMES) frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð árið 2002 og LL.M. meistaragráðu í Evrópurétti við lagadeild Háskólans í Lundi árið 2003. Hún hefur lagt stund á stjórnunarnám við Saïd Business School í Oxford háskóla. Kristín var jafnframt um tíma stundakennari og prófdómari í námskeiðum í umhverfisrétti við háskólastofnanir á Íslandi. Kristín Linda hefur tekið þátt í ýmsu alþjóðasamstarfi á vettvangi umhverfismála. Meðal annars sem fulltrúi Íslands í evrópsku neti ábyrgðaraðila á innleiðingu vatnatilskipunar Evrópusambandsins, evrópsku neti forstjóra evrópskra umhverfisstofnana, fulltrúi Íslands í stýrihópi um norræna umhverfismerkið Svaninn og stýrir nú vinnuhópi í Norðurskautsráðinu sem vinnur að því að draga úr losun sóts og metans (EGBMC) á norðurslóðum.