7. febrúar 2008 Hrein orka: Ísland er með 75%, ESB stefnir á 20% Grein Gústafs Adolfs Skúlasonar í 24 stundum: Á dögunum kynnti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) svokallaðan „grænan pakka“ tilskipunardraga þar sem meðal annars er sett markmið um að árið 2020 verði 20% orkunotkunar innan sambandsins fengin frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Jafnframt hyggst ESB draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 20% fyrir árið 2020, miðað við árið 1990, en víðast hvar er einkum horft til breytinga á orkuframleiðslu í því skyni. Nokkuð hefur verið fjallað um þessar tillögur ESB að undanförnu, en þær eru þó sjaldnast settar í samhengi við stöðuna hér á landi. Á Íslandi er hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa um 75% og verður orðið um 80% síðar á þessu ári, með frekari gangsetningu nýrra gufu- og vatnsaflsvirkjana. Endurnýjanlegir orkugjafarÓhætt er að segja að þessi nýju markmið ESB séu metnaðarfull, til dæmis í ljósi þess að ekki virðist ætla að takast að ná fyrra markmiði sambandsins frá árinu 1997 um 12% hlut endurnýjanlegra orkugjafa árið 2010. Hins vegar er mikið ánægjuefni að framkvæmdastjórn ESB hafi sett sér þessi metnaðarfullu markmið, en losun koltvísýrings stafar jú einkum af brennslu jarðefnaeldsneyta. Talsmenn atvinnulífs hafa þó lýst áhyggjum af því að kröfur á þeirra hendur um samdrátt í losun geri fyrirtækin ósamkeppnishæf og því muni þau jafnvel neyðast til að færa framleiðslustarfsemi til ríkja utan ESB. Eins hefur verið kvartað undan skorti á sveigjanleika í tillögum ESB, til dæmis varðandi möguleika á viðskiptum með svokölluð vottorð um endurnýjanlega orku milli ríkja. Enn á þó eftir að útfæra framkvæmd þessara áætlana betur. Sérstaða Íslands í loftslagsmálumStaðan í þessum efnum er sem fyrr segir mjög sérstök á Íslandi. Hér eru nú þegar um 75% orkunotkunar fengin frá endurnýjanlegum orkugjöfum og fer hlutfallið raunar vaxandi með frekari gangsetningu nýrra gufu- og vatnsaflsvirkjana (hérlendis er innflutt orka einkum notuð við fiskveiðar og samgöngur). Þetta háa hlutfall hreinnar orku vekur sífellt meiri athygli annarra þjóða enda Ísland í einstakri stöðu að þessu leyti. Sóknarfærin til minnkandi losunar á gróðurhúsalofttegundum eru sem fyrr segir víðast hvar einna helst talin liggja á sviði orkuframleiðslu og er meðal annars horft til kjarnorku í þeim efnum. Gríðarlegt forskotLjóst er að Ísland, sem þegar nýtir nær eingöngu endurnýjanlega orkugjafa til raforkuframleiðslu og húshitunar, hefur þegar stigið flest tæknilega fýsileg skref í þessa veru, þótt vonir séu vissulega bundnar við svokallað djúpborunarverkefni sem gæti gert það mögulegt að margfalda orkuframleiðslu á jarðhitasvæðum frá því sem nú er. Þá fara vonir vissulega vaxandi um tækniþróun í samgöngum, til dæmis hvað varðar frekari þróun á rafhlöðum í bifreiðar. Með frekari þróun á því sviði verðum við í enn betri stöðu hér á landi, því við getum jú einmitt fyllt á tankinn með raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum. Ólíkt mörgum öðrum Evrópuríkjum eigum við ekki hins vegar ekki mikla möguleika á að stórauka hlut endurnýjanlegrar orku í okkar orkunotkun, einfaldlega vegna þess hversu gríðarlegt forskot við höfum nú þegar og hversu hátt þetta hlutfall er þegar orðið hérlendis. Fyrir vikið getum við Íslendingar ekki flutt inn „hráa“ þá umræðu sem nú á sér stað í ESB, um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda með áherslu á aukinn hlut endurnýjanlegra orkugjafa, eða kjarnorku.