18. mars 2020 Grunnþjónustan varin í COVID-19 faraldri Aðildarfyrirtæki Samorku flokkast sem samfélagslega mikilvægir innviðir og gripið hefur verið til róttækra aðgerða til þess að tryggja að starfsemi þeirra geti haldið áfram þannig að grunnþjónustan í landinu, eins og rafmagn, hitaveita, fráveita og vatnsveita, starfi eðlilega þrátt fyrir COVID-19 faraldurinn. Eins og fjallað var um hjá RÚV hefur verið gripið til mikilla ráðstafana í orku- og veitufyrirtækjum landsins. Stærstur hluti starfsfólks vinnur heima, nema þeir sem alls ekki geta það eða þurfa að vera á staðnum til að reka stjórnstöðvar og þá er starfsfólkinu skipt upp í hópa sem hittast ekki. Langt er síðan tekið var fyrir fundi og tekið var fyrir heimsóknir utanaðkomandi aðila í orku- og veitufyrirtækin. Þetta er gert til að minnka líkur á smiti. Grunnþjónustan í landinu virkar ekki nema þegar starfsfólkið er til staðar til að reka kerfin. Því er mikilvægt að gripið sé til svo umfangsmikilla aðgerða svo við getum áfram fengið gott drykkjarvatn, getum gengið að góðri fráveituþjónustu, notið þess að híbýli okkar séu hlý og góð og að við fáum rafmagn í innstungurnar. Samorka vill þakka öllu starfsfólki orku- og veitufyrirtækjanna sem hefur brugðist hratt og rétt við í krefjandi aðstæðum.