5. nóvember 2019 Græn skírteini tækifæri til að hámarka virði orkunnar Fræðslufundur Samorku um upprunaábyrgðir, eða græn skírteini, var haldinn á Icelandair Hótel Natura mánudaginn 4. nóvember. Upptökur af erindum má finna í þessari frétt. Upprunaábyrgðir raforku urðu til sem liður í því að vinna á móti loftslagsbreytingum með því að vera fjárhagslegur hvati til að byggja upp græna orkukosti í Evrópu. Þau ganga út á það að gera hreinleika orku að sérstökum verðmætum og sjái einstaklingar eða fyrirtæki ávinning í því að segjast nota hreina orku þurfi að borga markaðsvirði fyrir það. Upprunaábyrgðir eru innifaldar í raforkuverði til heimila og fyrirtækja á almennum markaði á Íslandi og getur það verið tækifæri til samkeppnisforskots á markaði, vegna þess að viðskiptavinir verða sífellt meðvitaðri um virðiskeðju framleiðslunnar. Á fundinum tóku til máls Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs, Eyrún Guðjónsdóttir, sérfræðingur hjá Dóttir Consulting, Lovísa Árnadóttir upplýsingafulltrúi Samorku og Alexandra Münzer framkvæmdastjóri Greenfact. Fundarstjóri var Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóri Greininga hjá Íslandsbanka. Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs, var meðal framsögumanna á fundinum. Mynd: Eyþór Árnason Halldór fór yfir loftslagsmál og loftslagsaðgerðir í stóru myndinni í upphafi fundar. Hann sagði meðal annars í erindi sínu að þörf væri á að verðleggja aðgang að andrúmsloftinu m.a. með viðskiptum með losunarheimildir, kolefnisbindingar og skattlagningu losunar. Þá væri mikilvægt að ná fram beinum aðgerðum til að auka hlutdeild endurnýjanlegrar orku og grænu skírteinin séu liður í því. ,,Öll vegferðin fram að 2050 skiptir máli. Að gera ekkert er dýrasti valkosturinn. Við þurfum alla verkfærakistuna til að endurskapa orkukerfi,“ sagði Halldór. Eyrún Guðjónsdóttir hjá Dóttir Consulting Mynd: Eyþór Árnason Eyrún talaði um þátttakendur og virkni kerfisins upprunaábyrgðir raforku þar sem kom fram að kaupendur grænna skírteina séu heimili og fyrirtæki í Evrópu, sem sækist eftir því að nota græna raforku. Eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku hefði aukist mikið, og þar með viðskipti með græn skírteini. Sagði hún að sífellt fleiri lönd taki þátt í kerfinu um upprunaábyrgðir og hlutfall endurnýjanlegrar orkuvinnslu væri hærra í þeim löndum, sem sýnir að kerfið virkar. „Það er mikilvægt fyrir fyrirtæki að vera með grænu skírteinin til að geta sýnt fram á stuðning sinn við uppbyggingu endurnýjanlegrar orku og geta notað það í sitt græna bókhald,“ sagði Eyrún á fundinum. Þá sagði hún að fyrirtæki í fjölmörgum geirum kaupi græn skírteini, bæði beint frá raforkuframleiðendum og í gegnum miðlara. Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi á Samorku, fjallaði um upprunaábyrgðir í íslensku samhengi. Mynd: Eyþór Árnason Lovísa talaði meðal annars um fjárhagslegan ávinning Íslands sem væri töluverður í þessu kerfi og að líta eigi á það sem tækifæri til að hámarka verðmæti þeirra orku sem hér er framleidd. ,,Það skiptir máli fyrir heiminn allan að á Íslandi sé framleidd græn orka og því eðlilegt að við njótum ávinnings af því.“ Út frá markaðsvirði skírteinanna getur upphæðin sem íslenskir raforkuframleiðendur fá numið frá 0,5 – 5,5 milljörðum á ári, en árið 2018 voru tekjurnar af sölunni í kringum 800 – 850 milljónir króna. Í erindi hennar kom fram að sala grænna skírteina á Íslandi hefði engin áhrif á skuldbindingar Íslands eða annarra landa í loftslagsmálum og á Íslandi sé áfram framleidd raforka með endurnýjanlegum hætti. Alexandra Münzer frá Greenfact, greiningafyrirtæki sem sérhæfir sig í markaði um upprunábyrgðir í Evrópu, fór yfir hvernig markaðurinn virkar og hvernig verð grænna skírteina hefur þróast í gegnum tíðina. Alexandra Münzer frá Greenfact greiningarfyrirtækinu fjallaði um markaðinn með upprunaábyrgðir Upptökur: Alþjóðlegar loftslagsaðgerðir og græn skírteini – Halldór Þorgeirsson from Samorka on Vimeo. Kerfið um græn skírteini: Virkni og þátttakendur – Eyrún Guðjónsdóttir from Samorka on Vimeo. The Wholesale Market for Guarantees of Origin – Alexandra Münzer from Samorka on Vimeo. Eggert Benedikt Guðmundsson og Kamma Thordarson frá Grænvangi. Fundurinn var vel sóttur. Birta Kristín Helgadóttir Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóri Greininga Íslandsbanka stýrði fundinum. Gestir fundarins, meðal annars Páll Erland framkvæmdastjórji Samorku. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar Halldór Þorgeirsson og Eggert Benedikt Guðmundsson á spjalli í lok fundar. Upptaka af fundinum í heild sinni: Dafnandi græn orka – fræðslufundur um upprunaábyrgðir raforku from Samorka on Vimeo.