28. júní 2022 Föngun og förgun CO² úr andrúmslofti tífölduð á Hellisheiði Nýtt lofthreinsiver Climeworks á Hellisheiði, í samstarfi við Carbfix og Orku náttúrunnar, mun tífalda núverandi afköst föngunar og förgunar á koldíoxíði (CO2) úr andrúmslofti á svæðinu. Fyrir er Orca, lofthreinsiver Climeworks, sem tók til starfa síðastliðið haust og var hið fyrsta sinnar tegundar í heiminum. Með nýja lofthreinsiverinu, sem kallast Mammoth, fara afköst föngunar á Hellisheiði úr fjórum þúsundum tonna af CO2 á ári í alls 40 þúsund tonn en því er síðan fargað neðanjarðar með Carbfix tækninni, þar sem það hvarfast við berggrunninn og myndar steindir. Framkvæmdir við Mammoth eru hafnar og gert er ráð fyrir að nýja stöðin taki til starfa eftir 18-24 mánuði. Bygging nýja lofthreinsiversins, Mammoth, á Hellisheiði. Í nýjustu loftslagsskýrslu Sameinuðu þjóðanna kemur fram að auk verulegs samdráttar í losun er föngun og förgun CO2 úr andrúmslofti nauðsynleg í meirihluta þeirra sviðsmynda sem takmarka hlýnun andrúmsloftsins við 1,5 gráður árið 2100. Í skýrslunni kemur fram að til að ná því markmiði þurfi að fanga allt að 310 milljarða tonna af CO2 úr andrúmsloftinu til næstu aldamóta. Orka náttúrunnar útvegar lofthreinsiverinu rafmagn, skiljuvatn og kalt vatn, en það verður staðsett í Jarðhitagarði ON á Hellisheiði, eins og Orca sem þar er fyrir.