19. júní 2007 Evrópa: Miklar áskoranir á sviði raforku Grein Gústafs Adolfs Skúlasonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Samorku, í Morgunblaðinu: Öruggt framboð á raforku, samdráttur í losun koltvísýrings og aukin samtvinnun markaða yfir landamæri, samhliða sívaxandi eftirspurn eftir raforku. Þetta eru mikilvæg verkefni sem Evrópuríkin standa frammi fyrir á sviði raforkumála og þetta voru jafnframt helstu umræðuefni ársfundar Eurelectric, Evrópusamtaka rafiðnaðarins, í Antwerpen á dögunum. Mismunandi áherslur eru uppi um æskilega forgangsröðun þessara þriggja verkefna og engan veginn ljóst að aðgerðir vegna eins verkefnanna styrki stöðuna gagnvart hinum. Mörg Evrópuríki eru mjög háð innfluttu eldsneyti til raforkuframleiðslu. Misjöfn samskipti við sum helstu útflutningsríki á olíu og gasi eru þess vegna, ásamt mismunandi afstöðu gagnvart nýtingu kjarnorkunnar, meðal helstu ástæðna þess að margir setja spurningarmerki við öryggi í raforkuframboði samfara sívaxandi eftirspurn. Þá hefur Evrópusambandið sett sér háleitt markmið um heildarhlutfall endurnýjanlegra orkugjafa árið 2020 (20% af allri orkunotkun, hlutfallið er 7% í ESB í dag en 72% á Íslandi). Á ársfundi Eurelectric voru uppi miklar efasemdir um þetta markmið, nema hugsanlega ef gríðarlega miklu yrði kostað til, til dæmis í formi rannsókna og þróunar. Innan ESB eru nú um 15% raforku framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum og vegur vatnsaflið þar lang þyngst. Rúmur þriðjungur raforkunnar er framleiddur með kjarnorku og afgangurinn með brennslu jarðefnaeldsneytis á borð við kol, gas og olíu, en losun koltvísýrings í andrúmsloftið stafar öðru fremur af brennslu slíkra efna. Á Íslandi er nánast öll raforka framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum, eða um 99,9%. Nýta þurfi alla orkumöguleikaÍ stefnumörkun sinni segja Eurelectric hægt að ná verulegum árangri á öllum þessum sviðum ef horft sé til langs tíma, eða til ársins 2050. Samtökin leggja áherslu á að nýta beri alla möguleika til orkuöflunar og nefna kjarnorku annars vegar og hins vegar vatnsafl og aðra endurnýjanlega orkugjafa í því sambandi. Þá verði að gera stórátak í þágu raforkusparnaðar annars vegar og á sviði rannsókna og þróunar hins vegar. Loks þurfi að stórbæta regluumhverfi ESB sem í dag hamlar verulega samkeppni yfir landamæri enda víðs fjarri að hægt sé að tala um raunverulegan innri markað á sviði raforku. Það var afar fróðlegt fyrir íslensku fulltrúana að taka þátt í störfum fundarins. Eflaust getum við dregið gagnlega lærdóma af reynslu einhverra annarra Evrópuríkja þegar kemur að markaðs- og samkeppnismálum á innanlandsmarkaði fyrir raforku, þótt ekki eigum við beinna hagsmuna að gæta hvað varðar þróun samevrópsks raforkumarkaðar (hér er ekki ætlunin að ræða hugmyndir um sæstreng). Þá er orkusparnaður göfugt markmið hvar sem er og rannsóknir og þróun í því skyni og í skyni minnkandi losunar á koltvísýringi eru mikilvæg verkefni hérlendis sem annars staðar. Blessunarlega erum við þó í ólíkt betri stöðu en þessi nágrannaríki okkar þegar kemur að spurningunum um hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa og öryggi í framboði á raforku. Þarna standa mörg Evrópuríki frammi fyrir miklum áskorunum, en geta einungis látið sig dreyma um þá sterku stöðu sem við Íslendingar njótum.