19. febrúar 2016 Eru snjöll veitukerfi ákjósanlegur kostur? Meta þarf kostnað og ávinning á ítarlegan hátt áður en ráðist er í að snjallvæða raforkukerfi landsins, eins og nágrannalönd okkar eru komin vel á veg í að gera samkvæmt tilskipun frá ESB. Snjallvæðing á að meðal annars að skila betri orkunýtingu, en óvíst er að fjárfesting upp á nokkra milljarða króna borgi sig vegna þess hversu ódýrt rafmagn er hér á landi. Snjallvæðing raforkukerfa hefur margs konar ávinning. Til dæmis raunreikninga í stað áætlanareikninga, orkunotkun er stýrt eftir þörfum og orkuverði og heimilistæki geta verið fjarstýranleg. Kostnaður sparast við álestur, minna álag á þjónustuver með betur upplýstum viðskiptavinum, sjálfvirkar bilanatilkynningar og sjálfvirk tímapöntun á viðgerð. Segja má að hver geti verið eigin orkubússtjóri. Fjárfestingin er hins vegar mikil. Í aðildarríkjum ESB hljóðar hún upp á 7.000 milljarða fjárfesting sem dreifist á 20 ára tímabil til ársins 2020. Samkvæmt tilskipun frá ESB hafa flest aðildarríki ráðist í að meta hagkvæmni þess að ráðast í snjallvæðinguna og í flestum tilfellum er ávinningur talinn umfram kostnað, þar á meðal á öllum hinum Norðurlöndunum. Tilskipun ESB um hagkvæmnisathugun hefur ekki verið tekin upp hér á landi og spurningin er hvort ávinningurinn hér á landi sé sá sami og hjá öðrum Evrópuríkjum, því raforkan er miklu ódýrari en annars staðar. Meðaltalskostnaður snjallvæðingarinnar á hvern mæli hjá ESB er 253 evrur, eða 40 þúsund krónur. Hjá Veitum eru 100 þúsund rafmagnsmælar og fjárfestingin gæti því verið 4 milljarðar króna. Heildartekjur dreifiveitu Veitna eru 7.000 mkr. á ári og lauslega reiknað þyrftu tekjumörk Veitna að hækka um 450 mkr. eða um 6,5% til að ná fjárfestingunni til baka. Hér er þó ekki tekið tillit til ávinnings af snjallmælum. Ólíklegt er að ávinningur sé umfram kostnað. Unnið er að hagkvæmnisgreiningu á vettvangi Samorku. Glærur Jakobs frá erindinu má nálgast hér.