24. júní 2008 Einkennileg skrif Framtíðarlandsins Framtíðarlandið sendi á dögunum frá sér ritgerð þar sem fjallað er um meinta ríkisstyrki við stóriðju á Íslandi. Ritgerðin er um margt býsna merkileg, en þar er því til dæmis haldið fram að „jákvæð áhrif fullbúinna álvera á viðskiptajöfnuð virðist takmörkuð og tímabundin.“ Útflutningur vaxi að magni til fyrst eftir að álverksmiðja taki til starfa en haldist síðan lítið breyttur. Þetta er afar merkileg niðurstaða og samkvæmt henni skiptir þessi stöðugi útflutningur þá litlu máli fyrir viðskiptajöfnuðinn nema rétt meðan um aukningu er að ræða. Nú er það svo, sem kunnugt er, að álið hefur farið framúr fiskafurðum í útflutningsverðmæti. Að einhverju leyti verður það því miður rakið til niðurskurðar í þorskveiðum. En þessar útflutningstekjur skipta þá litlu máli í framtíðinni samkvæmt röksemdafærslunni í ritgerð Framtíðarlandsins, ef aðrar greinar sigla aftur framúr. Einhver hefði haldið að útflutningstekjurnar væru af hinu góða, hvaða greina sem rekja mætti þær til. Opinberar ábyrgðir reiknaðar sem bein fjárframlögÍ leit ritgerðarinnar að meintum ríkisstuðningi við stóriðju er einkum lögð áhersla á ábyrgð opinberra aðila á lánum orkufyrirtækja í opinberri eigu. Því er blákalt haldið fram að þessar ábyrgðir gætu eins falist í beinum fjárframlögum og síðan er haldið út í æfingu til að reikna út andvirði þessara fjárframlaga miðað við erlent dæmi. Engu virðist skipta að aldrei hefur reynt á þennan meinta kostnað hins opinbera, þessi fjárframlög hafa aldrei komið til. Þá er gengið út frá þeirri forsendu að allar virkjanir sem selji raforku til álvera kosti það sama „á hvert tonn sem framleitt er af áli“ og ekki er litið til þess að virkjanir vegna eldri álvera kunni að vera afskrifaðar að miklu leyti, enda breyti það litlu um „efnahagslegt verðmæti þeirra.“ Afskrifuð virkjun í fullri starfsemi er sem sagt ekkert verðmætari eign en sú sem nýverið hefur tekið til starfa og er enn mjög skuldsett? Fleira mætti týna til og ekki er ætlunin að fara dýpra ofan í þessa ritgerð hér. Það sem vekur hins vegar furðu er hve ríkur vilji virðist vera til að finna efnahagsleg rök gegn bæði virkjunum og stóriðju. Nú hefur Samorka enga sérstaka stefnu um frekari uppbyggingu stóriðju hérlendis, en hins vegar er þarna um að ræða afar verðmæta viðskiptavini íslenskra raforkufyrirtækja og samtökin sjá ekki hvaða ástæður geta legið að baki þeirri mjög svo neikvæðu gagnrýni sem þessi starfsemi sætir. Nær eina erlenda fjárfestingin hérlendisSem fyrr segir vegur ál nú þyngst allra vöruflokka í útlutningstekjum Íslendinga. Íslensk raforkufyrirtæki hafa miklar tekjur og góða arðsemi af orkusölu til þessara fyrirtækja. Þessi fyrirtæki skapa hér mörg vel launuð störf, hafa stuðlað hér að öflugri þekkingaruppbyggingu og hafa mikil afleidd umsvif í för með sér. Loks hefur bein erlend fjárfesting í íslensku atvinnulífi lengstum einskorðast að mestu við þessi fyrirtæki, ef undan eru skilin erlend eignarhaldsfélög í eigu íslenskra aðila sem undanfarin 2-3 ár hafa fjárfest hér mikið fyrir erlent lánsfé. Því miður horfir ekki of vel í dag með sum þessara félaga. Ávallt verður til staðar andstaða við einstakar virkjana- eða stóriðjuframkvæmdir á grundvelli náttúruverndarsjónarmiða. Allir aðilar reyna að koma til móts við slík sjónarmið og sumum hugmyndum um framkvæmdir er einfaldlega hafnað. En þessi sífellda leit að efnahagslegri gagnrýni á þessar atvinnugreinar verður seint skilin.