Landsnet og Landsvirkjun gera nýjan samning um reiðuafl

Landsnet og Landsvirkjun hafa gert samning um kaup og sölu á reiðuafli. Um er að ræða 40 MW af alls 100 MW reiðuafli sem Landsvirkjun hefur selt Landsneti á undanförnum árum. Nýi samningurinn tekur við af eldri samningi sem gerður var árið 2005.

Reiðuafl er afl sem notað er til þess að stýra tíðni flutningskerfisins með því að bregðast á fljótvirkan og sjálfvirkan hátt við sveiflum í notkun og framleiðslu raforku, en ómögulegt er að sjá nákvæmlega fyrir slíkar sveiflur.

Reiðuaflssamningar milli fyrirtækjanna eru þrír. Sá sem nú er endurnýjaður felur í sér 30 MW afl frá stöðvum á Þjórsársvæði og 10 MW afl frá Blöndustöð. Hinir samningarnir eru 30 MW hvor, frá Fljótsdalsstöð og Þjórsársvæði.

Tilgangur samningsins er að tryggja þennan lögboðna hluta kerfisþjónustu Landsnets sem er nauðsynlegur til þess að halda uppi gæðum rafmagns um land allt.

Breyttar aðstæður og þrengri aflstaða

Nýting íslenska raforkuvinnslukerfisins eykst stöðugt og eftirspurn eftir orku er meiri en framboð. Verð í hinum nýja samningi tekur mið af nýgerðum samningum Landsvirkjunar við sölufyrirtæki raforku og byggir m.a. á áætluðum kostnaði við fjárfestingu í auknu afli í raforkukerfinu við núverandi aðstæður.

Landsnet mun birta reiðuaflssamninginn á heimasíðu sinni.

160 sólarorkulampar til Afríku

givewatts_2Samorka mun koma 160 sólarorkulömpum til Kendu Bay í Kenýa, Afríku í samstarfi við GIVEWATTS og skipta þar með út heilsuspillandi steinolíulömpum fyrir endurnýjanlegan orkugjafa.

Ráðist var í verkefni í tilefni af degi rafmagnsins sem haldinn var hátíðlegur mánudaginn 23. janúar. Tilgangurinn með deginum er að vekja athygli á mikilvægi rafmagns í samfélaginu, í leik og starfi og þeim hreina endurnýjanlega orkugjafa sem Íslendingar hafa aðgang að á hverjum degi, ólíkt mörgum öðrum þjóðum. SAMORKA biðlaði til almennings um að vekja athygli á verkefninu með því að merkja mynd með #sendustraum á samfélagsmiðlum.

dagur-rafmagnsins-logo

Um það bil 800 manns í bænum Kendu Bay munu því njóta góðs af degi rafmagnsins á Íslandi, þar sem að meðaltali fimm einstaklingar njóta góðs af hverjum lampa. Sólarorkulampi gefur næga birtu til að halda áfram daglegu amstri eftir að sólin er sest án þess að heimilisfólk hafi áhyggjur af heilsufari eða fjárhag. Að auki gefur hann næga orku svo hægt sé að hlaða farsíma.

Hægt verður að fylgjast með framvindu verkefnsins í nafni SAMORKU á heimasíðu GIVEWATTS þegar fram líða stundir.

GIVEWATTS eru samtök sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni (non-profit organization) og sérhæfa sig í heimilistækjum sem ganga fyrir endurnýjanlegri orku. Í lok árs 2016 hafði GIVEWATTS dreift rúmlega 25 þúsund lömpum til heimila og skóla í Kenýa og Tansaníu.

Hægt er að skoða þær myndir sem merktar voru #sendustraum á Instagram. Til gamans má einnig benda á aðrar merkingar sem notaðar eru á Norðurlöndunum á degi rafmagnsins, eins og #Elensdag í Svíþjóð og #Sähkönpäivä í Finnlandi, en dagur rafmagnsins hefur haldinn um nokkurra ára skeið í Svíþjóð, Danmörku, Noregi og Finnlandi.

Orkusalan aðalbakhjarl Vetrarhátíðar 2017

orkusalan-vetrarhatid
Magnús Kristjánsson, frkvstj. Orkusölunnar, og Áshildur Bragadóttir, forstöðukona Höfuðborgarstofu, undirrita samstarfssamninginn.

Orkusalan verður aðalbakhjarl Vetrarhátíðar í Reykjavík í ár, en samstarfssamningur fyrirtækisins og Höfuðborgarstofu var undirritaður á dögunum.

Vetrarhátíð í Reykjavík verður haldin í 16. sinn dagana 2. – 5. febrúar. Megintilgangur Vetrarhátíðar er að skemmta fólki á höfuðborgarsvæðinu og gefa því tækifæri til að njóta ókeypis viðburða á sviði menningar, lista, íþrótta og útiveru í eigin sveitarfélagi og/eða heimsækja nágranna sína í nærliggjandi sveitarfélagi.

Norðurljósalitirnir, grænn og fjólublár eru einkennislitir Vetrarhátíðar og verða á þriðja tug bygginga á höfuðborgarsvæðinu upplýstar auk ljóslistaverka á þekktum byggingum á höfuðborgarsvæðinu.

Magnús Kristjánsson, framkvæmdastjóri Orkusölunnar, segir samninginn gera fyrirtækinu kleift að styðja við menningarlífið á höfuðborgarsvæðinu þar sem ljós og myrkur spili lykilhlutverk en einnig eigi hátíðin vel við hlutverk Orkusölunnar um að koma höfuðborgarbúum í stuð!

#sendustraum á degi rafmagnsins

Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku.
Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku.

Hvernig væri lífið án rafmagns? Í nútíma samfélagi er svarið við þeirri spurningu líklega: Óhugsandi. Við tökum því sem sjálfsögðum hlut á hverjum degi. Langt skammdegið hefur engin áhrif á okkar daglega líf og við njótum þeirra forréttinda að orkan okkar er ódýr og um leið hrein, þar sem nær öll raforkuframleiðsla á Íslandi er með endurnýjanlegum hætti.

Stór hluti mannkyns býr við allt annan veruleika.

1,3 milljarður manna býr við takmarkað aðgengi að rafmagni. Steinolía er til dæmis aðalorkugjafi heimila í fjölmörgum löndum Afríku. Olían er dýr og gufurnar frá henni eru skaðlegar, sérstaklega börnum. Þrátt fyrir það eiga margar fjölskyldur ekki annan kost eftir að sólin er sest en birtu frá steinolíulampa til að geta athafnað sig við einföld heimilisstörf og börnin við heimanám.

Dagur rafmagnsins hefur verið haldinn hátíðlegur þann 23. janúar á Norðurlöndunum um nokkurra ára skeið. Honum er ætlað að minna á að rafmagn er ekki sjálfgefið og að við gefum því stóra hlutverki sem það spilar í lífi okkar meiri gaum. Um leið er tilvalið að láta gott af sér leiða.

Í tilefni af degi rafmagnsins ætlar SAMORKA, í samstarfi við sænsk-afríska félagið Givewatts, að hjálpa bæjarbúum í Kendu Bay í Kenýa að skipta yfir í endurnýjanlegan orkugjafa, líkt og þá sem við búum við hér á landi, í formi sólarorkulampa. Sólarorkulampinn gefur góða birtu fyrir heimili og skóla og hægt er að nota hann til að hlaða farsíma. Hann gefur kost á betri heilsu, hjálpar börnum að ná markmiðum sínum í námi og ýtir undir hraðari þróun samfélagsins. Að auki leggjum við okkar af mörkum í að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis í heiminum – margt smátt gerir eitt stórt.

Taktu þátt í degi rafmagnsins með okkur. Sendu straum þangað sem þörfin er mest með því að deila mynd af gildi rafmagns í þínu daglega lífi á Facebook/Instagram og merktu hana #sendustraum. Fyrir hverja mynd sem berst leggur SAMORKA 300 kr. til verkefnisins. Markmiðið er að koma yfir 100 sólarorkulömpum til fjölskyldna í Kendu Bay.

Til hamingju öll með dag rafmagnsins.

(Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 23. janúar 2017)

Umhverfisvæn raforkuframleiðsla á Íslandi

Aðeins 22% allrar raforku í OECD ríkjum er framleitt með endurnýjanlegum hætti. Á Íslandi er þetta hlutfall 99,99% . Þetta kemur fram í nýjustu tölum frá Alþjóðaorkumálastofnuninni (IEA).

Tölur Alþjóðaorkumálastofnunarinnar ná yfir tímabilið 2014-2016. Þar kemur fram að 60% rafmagns í OECD ríkjum er framleitt með jarðefnaeldsneyti, 18% með kjarnorku, 14% með vatnsafli og loks rúmlega 8% með jarðvarma, vindi, sólarorku eða öðru. Athygli vekur hversu hægt dregur úr umfangi jarðefnaeldsneytis við rafmagnsframleiðsluna í ríkjum OECD, en jafnframt má sjá hlutfallslega aukningu í jarðvarma, vindi, sól og fleiru.

Þegar sama tímabil er skoðað fyrir Ísland sést að vatnsafl er að baki um 73% af heildarraforkuframleiðslu á Íslandi og jarðvarmi um 26%. Framleiðsla með jarðefnaeldsneyti er hverfandi. Þar sem hún mælist er líklega um varaaflstöðvar að ræða sem eru keyrðar í gang við rafmagnsleysi í flutnings- eða dreifikerfinu.

Að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis er eitt mikilvægasta verkefni sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir í loftslagsmálum. Ítarlegar rannsóknir hafa sýnt fram á hækkandi hitastig jarðarinnar með alvarlegum afleiðingum fyrir komandi kynslóðir.

105 hleðslustöðvar fyrir rafbíla bætast við

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur staðfest tillögur ráðgjafanefndar Orkusjóðs um veitingu styrkja til uppbyggingar innviða fyrir rafbíla.

16 verkefni hljóta styrk, samtals að fjárhæð 201 m.kr. Af styrkþegunum 16 eru samtals 6 sveitarfélög. Auk þeirra er þar að finna orkufyrirtæki, söluaðila eldsneytis og fleiri aðila.

Með þessum verkefnum verður hægt á næstu tveimur árum að byggja upp heildstætt net hleðslustöðva fyrir flesta landsmenn og þannig stigið stórt skref í rafbílavæðingu Íslands. Um er að ræða bæði hraðhleðslustöðvar og hefðbundnar hleðslustöðvar, eða 42 hraðhleðslustöðvar og 63 hefðbundnar stöðvar. Þar með verða 105 nýjar hleðslustöðva byggðar upp á tímabilinu.

Í dag eru 13 hraðhleðslustöðvar fyrir rafbíla á landinu, sem allar koma frá Orku náttúrunnar. Orka náttúrunnar hefur verið í forystu uppbyggingar hraðhleðslustöðva og hlaut rúmlega 57 milljón króna styrk að þessu sinni til að halda henni áfram. Fyrir styrkféð hyggst fyrirtækið byggja upp 14 nýjar hraðhleðslustöðvar og fjórar hefðbundnar, bæði á eigin vegum og í samstarfi við aðra. Nánari upplýsingar um verkefnið má sjá á heimasíðu Orku náttúrunnar.

Dreifingu allra 105 stöðvanna á landsvísu má sjá á myndinni en einnig á vef Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, ásamt frekari upplýsingum.

 

hledslustodvar

 

Þessir styrkir til innviða senda sterk skilaboð um að hafin er stórfelld og markviss uppbygging innviða fyrir rafbíla sem mun m.a. auka til muna möguleika á ferðum út fyrir höfuðborgarsvæðið.

Verkefnið er hluti af sóknaráætlun Íslands í loftslagsmálum sem sett var fram í tengslum við 21. fund aðildarríkja loftslagssamningsins í París (COP21). Miðar verkefnið að því að gert verði átak í að efla innviði fyrir rafbíla á landsvísu til að tryggja aðgengi sem flestra landsmanna að loftslagsvænum samgöngumáta.

Góður árangur í fjármögnun hjá Landsneti

landsnet

Landsnet hefur gefið út óveðtryggð skuldabréf að fjárhæð 200 milljónir bandaríkjadollara (22,9 milljarðar króna). Fjármögnunin er liður í því að tryggja félaginu fjármagn á hagstæðum kjörum til lengri tíma, breyta samsetningu lána og draga úr gengisáhættu.

Bréfin eru að stærstum hluta með gjalddaga eftir tíu til tólf ár og bera að meðaltali 4,56% fasta vexti. Þau voru seld til alþjóðlegra fagfjárfesta í lokuðu útboði og munu ekki verða skráð í Kauphöll.

Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets segir þessa fyrstu erlendu skuldabréfaútgáfu Landsnets vera stórt skref og það sé ánægjulegt hvað fjárfestar sýndu félaginu mikið traust

„Skuldabréfaútgáfan skilar okkur hagstæðari kjörum auk þess sem dregið er úr gengisáhættu en félagið tók upp dollar sem uppgjörsmynt í ársbyrjun. Þá er lánstíminn lengri en almennt hefur tíðkast í erlendum lántökum síðustu árin. Við erum fyrsta orkufyrirtækið á landinu til að fara þessa leið í fjármögnun og er ánægjulegt hvað kjörin sem okkur bjóðast eru hagstæð og móttökurnar góðar. Það er árangur mikillar og góðrar kynningar á bæði félaginu og Íslandi.“

Nánari upplýsingar má sjá á heimasíðu Landsnets.

 

Orkusalan gefur fyrsta Græna ljósið

Magnús Kristjánsson, forstjóri Orkusölunnar, afhendir Skúla Mogensen, forstjóra WOW air, Græna ljósið.
Magnús Kristjánsson, forstjóri Orkusölunnar, afhendir Skúla Mogensen, forstjóra WOW air, Græna ljósið.

WOW air hlaut á dögunum viðurkenninguna Grænt ljós frá Orkusölunni fyrst allra fyrirtækja. Með viðurkenningunni er staðfest að öll raforkusala til WOW air er að fullu vottuð endurnýjanleg með upprunaábyrgðum samkvæmt alþjóðlegum staðli.

„Græn vottun getur skipt máli í viðskiptaumhverfinu og því felur ljósið í sér tækifæri fyrir viðskiptavini okkar til að aðgreina sig á markaðnum,“ segir Magnús Kristjánsson, forstjóri Orkusölunnar. „Með því að gefa Grænt ljós viljum við koma til móts við umhverfið. Það gerum við með því að hjálpa okkar viðskiptavinum við að auka samkeppnishæfni sína — um leið og þau styðja við vinnslu endurnýjanlegrar orku. Það er auðvitað eitthvað sem er okkur öllum í hag“.

Nánari upplýsingar um Grænt ljós má sjá á heimasíðu Orkusölunnar.

Kerfi upprunaábyrgða (stundum kallað græn skírteini) gerir kaupendum raforku í Evrópu kleift að styðja við vinnslu á endurnýjanlegri orku, óháð notkuninni. Ísland er hluti af innri markaði ESB í gegnum EES-samninginn og þar með hluti af þessu kerfi, sem ætlað er að sporna gegn auknum gróðurhúsaáhrifum í krafti aukins hvata til orkuvinnslu með endurnýjanlegum orkugjöfum.

Nánari upplýsingar um upprunaábyrgðir raforku.

Landsvirkjun og Advania gera rafmagnssamning

Gestur G. Gestsson, forstjóri Advania, og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar handsala nýjan rafmagnssamning fyrirtækjanna.
Gestur G. Gestsson, forstjóri Advania, og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar handsala nýjan rafmagnssamning fyrirtækjanna.

Landsvirkjun og Advania hafa undirritað samning um afhendingu á rafmagni til gagnavers Advania á Fitjum. Samningurinn gerir Advania kleift að halda áfram að tryggja vöxt gagnaversreksturs fyrirtækisins og hefst afhending samkvæmt samningi fyrir árslok 2016.

Orkan verður afhent úr núverandi aflstöðvakerfi Landsvirkjunar.

Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar fagnar komu Advania í hóp viðskiptavina fyrirtækisins og segir Ísland bjóða kjöraðstæður fyrir rekstur gagnavera, segir á vef Landsvirkjunar.

 

Jákvæð niðurstaða fyrir HS Orku

hsorkalogo

HS Orku hf. hefur borist jákvæð niðurstaða í gerðardómsmálinu sem varðaði gildi orkusölusamnings milli HS Orku hf. og Norðuráls Helguvíkur ehf. Þetta kemur fram á heimasíðu HS Orku í dag.

Gerðardómurinn komst að þeirri niðurstöðu að orkusölusamningurinn væri sökum tiltekinna kringumstæðna ekki lengur í gildi. Ennfremur var það niðurstaða gerðardómsins að lok samningsins væru ekki af völdum HS Orku og öllum gagnkröfum Norðuráls Helguvíkur ehf. í málinu var hafnað.

Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku hf., sagði af þessu tilefni: „Við erum ánægð að þetta langvinna mál sé nú að baki. Þessi niðurstaða mun gera okkur kleift að leita nýrra samningstækifæra á Íslandi án takmarkana eftir því sem ný orka verður til reiðu.“