Carbfix tilnefnt til alþjóðlegra verðlauna

Carbfix kolefnisförgunaraðferðin hefur verið tilnefnd til alþjóðlegu Keeling Curve verðlaunanna. Verðlaunin eru veitt árlega þeim sem náð hafa eftirtektarverðum árangri við að minnka losun eða auka bindingu gróðurhúsalofttegunda í þágu loftslagsmála.

Edda Sif Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix

„Það er ánægjuleg viðurkenning að fá þessa tilnefningu en hún endurspeglar sívaxandi áhuga og tiltrú á að Carbfix kolefnisförgunaraðferðin geti nýst við að draga úr styrk gróðurhúsaloftegunda í andrúmslofti og þannig spornað gegn loftslagsvánni ,“ segir Edda Sif Pind Aradóttir framkvæmdastýra Carbfix.

Alls eru tuttugu áhugaverð verkefni tilnefnd til Keeling Curve verðlaunanna á heimsvísu ár hvert og hljóta tíu þeirra verðlaun en tilkynnt verður í júní hver þessara verkefna verða fyrir valinu. Auk Carbfix eru þrjú önnur kolefnisbindingarverkefni tilnefnd að þessu sinni.

Carbfix aðferðin felst í að fanga og farga CO2 úr útblæstri í stað þess að sleppa því út í andrúmsloftið. Vatni með uppleystu CO2 – nokkurs konar sódavatni – er dælt ofan í berglög þar sem náttúrleg ferli taka við og umbreyta uppleysta koltvíoxíðinu varanlega í grjót. Orkuveita Reykjavíkur hefur frá árinu 2007 leitt þróun aðferðarinnar í samstarfi við Háskóla Íslands og erlendar rannsókna- og vísindastofnanir. Orka náttúrunnar hefur beitt Carbfix aðferðinni til að stórlega minnka losun CO2 og H2S frá Hellisheiðarvirkjun frá árinu 2014 og er aðferðin nú orðin sannreynd sem hagkvæm og umhverfisvæn lausn við varanlega förgun þessara lofttegunda. Carbfix hefur frá árinu 2019 verið rekið sem sjálfstætt dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur.

Íslenskt- gjörið svo vel: Sameiginlegt átak stjórnvalda og atvinnulífsins

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hafa undirritað samning um sameiginlegt kynningarátak stjórnvalda og atvinnulífs um að verja störf og auka verðmætasköpun undir heitinu:
Íslenskt – gjörið svo vel.

Framkvæmdastjórar samtaka í atvinnulífinu við undirskriftina í dag

Að samningnum standa atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök fjármálafyrirtækja, Samorka og Bændasamtök Íslands. Markmið samningsins er að móta og hrinda í framkvæmd sameiginlegu kynningarátaki sem miðar að því að hvetja landsmenn, almenning og fyrirtæki til viðskipta við innlend fyrirtæki á fjölbreyttum sviðum, við val á framleiðslu, vörum og þjónustu. Með því verði lögð áhersla á mikilvægi þeirrar keðjuverkunar og þeirri hringrás sem verður til við val á m.a. innlendri framleiðslu- og þjónustustarfsemi sem stuðlar að því að atvinnustarfsemi helst gangandi, störf almennings eru varin, efnahagslegur stöðugleiki eykst og verðmætasköpun er aukin.

Ríkið leggur 100 milljónir kr. til verkefnisins sem verður nýtt í fjármögnun á hönnun, framleiðslu og birtingu kynningarefnis.

Grunnur samningsins er það fordæmalausa ástand sem uppi er í heiminum vegna útbreiðslu COVID-19 og þau áhrif sem faraldurinn hefur haft hér á landi. Átakið er liður í efnahagsaðgerðum stjórnvalda gegn COVID-19 en með átakinu verður unnið gegn efnahagslegum samdrætti vegna heimsfaraldursins með það fyrir augum að lágmarka áhrifiná atvinnulíf, til skemmri og lengri tíma.

„Með þessu framlagi og samstarfi kynnum við og minnum á ágæti íslenskrar framleiðslu. Það er nauðsynlegt að lágmarka neikvæð áhrif á íslenskan landbúnað og sjávarútveg og milda höggið af COVID-19 sem er óhjákvæmilegt,“ segir Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

„Við þurfum nú sem aldrei fyrr að standa vörð um íslenska framleiðslu og þjónustu. Með þessu framlagi stjórnvalda tökum við höndum saman við atvinnulífið við að sporna gegn áhrifum COVID-19,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

„Það er mikilvægt að stjórnvöld og atvinnulíf snúi bökum saman nú þegar efnahagslífið er að ganga í gegnum miklar þrengingar vegna COVID-19. Með þessu kynningarátaki vilja Samtök atvinnulífsins, sex aðildarfélög SA og Bændasamtökin leggja sitt af mörkum til að hvetja landsmenn til að velja fjölbreyttar vörur og þjónustu af innlendum fyrirtækjum,“ segir Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins.

Ráðherrarnir og samningsaðilar undirrituðu samninginn rafrænt, en hittust öll á fjarfundi til að innsigla samkomulagið. Á fjarfundabúnaði voru auk ráðherranna:
Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður SA, Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ, Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF, Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri SFF, Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku og Gunnar Þorgeirsson formaður BÍ.

10 milljarða arðgreiðsla til ríkisins

Landsvirkjun greiðir íslenska ríkinu arð upp á 10 milljarða króna fyrir árið 2019, sem er ríflega tvisvar sinnum hærri arðgreiðsla en á síðasta ári, þegar hún nam 4,25 milljörðum kr. Þetta var samþykkt á aðalfundi Landsvirkjunar, sem haldinn var í dag. Árin þar á undan nam arðgreiðslan 1,5 milljörðum kr. árlega.

Á fundinum kom fram að ríkið gerir arðsemiskröfu til eigin fjár Landsvirkjunar upp á 7,5%.

Á aðalfundinum skipaði fjármála- og efnahagsráðherra í stjórn Landsvirkjunar samkvæmt lögum um fyrirtækið. Ekki voru gerðar breytingar á skipan stjórnar frá fyrra starfsári.

Aðalmenn í stjórn Landsvirkjunar eru: Jónas Þór Guðmundsson, Álfheiður Ingadóttir, Jón Björn Hákonarson, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir og Gunnar Tryggvason.

Fjárfestingar OR auknar um tvo milljarða

Á stjórnarfundi Orkuveitu Reykjavíkur (OR) í gær, 8. apríl, voru samþykktar aðgerðir til að bregðast við þeim afleiðingum sem Covid-19 faraldurinn hefur í för með sér fyrir atvinnulífið. Með aðgerðunum vill OR sýna samfélagslega ábyrgð í verki og auka fjárfestingar í verkefnum sem hafa mikil áhrif í samfélaginu með það að leiðarljósi að viðhalda atvinnustiginu í landinu.

Samþykkt var að auka fjárfestingar samstæðu OR um samtals 2 milljarða króna á árinu 2020. Veitur, eitt dótturfyrirtækja OR, hafa undanfarið skilgreint verkefni sem gætu komið til greina en gert er ráð fyrir því að framkvæmdir við veitukerfin verði uppistaðan í þeim fjárfestingaverkefnum sem ráðist verður í. Lagt er upp með að verkefnin verði mannaflsfrek og að þau verði sem víðast á starfssvæði Veitna.

Jafnframt var samþykkt að stefna að því að auka fjárfestingar á árinu 2021 um allt að 4 milljarða króna en endanleg ákvörðun um aukningu fjárfestinga á árinu 2021 kemur til afgreiðslu við gerð fjárhagsspár í haust.

Nánar um aðgerðir OR í kjölfar COVID-19 má lesa á heimasíðu samstæðunnar.

Ný könnun vegna COVID-19

Rúmlega 90 prósent forsvarsmanna fyrirtækja telja að tekjur muni minnka milli annars ársfjórðungs í fyrra og sama fjórðungs í ár, vegna áhrifa COVID 19 á íslenskt atvinnulíf. Minnkun tekna er að meðaltali áætluð 50 prósent en hjá þeim sem svara að hún minnki nemur samdrátturinn tæplega 55 prósent. 80 prósent forsvarsmanna íslenskra fyrirtækja telja að tekjur muni minnka í marsmánuði á milli ára. Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu, fyrir Samtök atvinnulífsins.

Tæplega 80 prósent fyrirtækja höfðu gripið til hagræðingaraðgerða vegna ástandsins og þar af var skert starfshlutfall starfsmanna algengasta aðgerðin. Þar á eftir kom niðurskurður annars rekstarkostnaðar.

Uppsagnir voru tæplega 6 þúsund vegna COVID 19. Langstærstur hluti í ferðaþjónustu og flutningum. Um 24 þúsund eru komnir í skert starfshlutfall af sömu ástæðum. Sú tala er nokkuð lægri en fjöldi umsókna um hlutabætur hjá Vinnumálastofnun föstudaginn 3. apríl, en þær nema um 30 þúsund. Sá mismunur sýnir vel hversu hratt forsendur breytast frá degi til dags, en könnunin var gerð á tímabilinu 26. til 31. mars.

Mest notkun hlutabótaúrræðisins er í flutningum og ferðaþjónustu, eða helmingur áformaðra skertra starfshlutfalla, en þar á eftir kemur verslun og önnur þjónusta.

Forsvarsmenn fyrirtækjanna voru spurðir um hversu lengi þeir teldu að áhrif COVID-19 muni vara á rekstur fyrirtækjanna. Flestir, eða 30 prósent, töldu áhrifin vara í þrjá til fjóra mánuði og fjórðungur taldi áhrifin standa í fimm til sjö mánuði. Allmargir, eða 29 prósent, töldu áhrifin vara lengur en tíu mánuði og að meðaltími áhrifanna er áætlaður 8 mánuðir.

Frekari upplýsingar og niðurbrot á svörum má sjá á síðu SA.

Samorkuþingi frestað um eitt ár

Samorkuþingi, sem halda átti á Akureyri þann 14. og 15. maí 2020, hefur verið frestað um eitt ár. Stjórn Samorku tók ákvörðun um þetta á stjórnarfundi í vikunni í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu.

Verið er að kanna með samstarfsaðilum á Akureyri hvaða dagsetningar henta best fyrir þingið í maí 2021. Um leið og það liggur fyrir verður ný tímasetning Samorkuþings kynnt.

Starfsfólk Samorku vill þakka þeim fjölmörgu sem hafa lagt hönd á plóg við undirbúning og skipulag viðburðarins og alveg sérstaklega þeim sem lagt hafa mikla vinnu í tillögur að erindum, sem voru hver annarri frambærilegri.

Við stefnum ótrauð á glæsilegt Samorkuþing 2021!

Fráveitustöð óstarfhæf vegna blautklúta

Hreinsistöð fráveitu við Klettagarða er nú óstarfhæf og fer óhreinsað skólp í sjó. Ástæðan er gríðarlegt magn af blautklútum, t.a.m. sótthreinsiklútum, í fráveitukerfinu. Svo virðist sem magn slíkra klúta, sem hent er í salerni, hafi aukist margfalt undanfarna daga og hefur það skapað mikið álag á allan búnað hreinsistöðva og starfsfólk.

Nú er svo komið að stöðva hefur þurft dælur og verið er að hreinsa þær og annan búnað stöðvarinnar.

Veitur sendu frá sér tilkynningu vegna þessa á föstudag þar sem fólk var hvatt til að henda alls ekki rusli eins og blautklútum í klósett, heldur í ruslið. Ekki bar sú hvatning tilætlaðan árangur að því er virðist.

 

Rafrænir upplýsingafundir fyrir stjórnendur aðildarfyrirtækja

Boðað er til þriggja rafrænna upplýsingafunda á mánudaginn fyrir stjórnendur aðildarfyrirtækja um viðfangsefni sem atvinnulífið stendur nú frammi fyrir vegna COVID 19. Tenglar á fundina verða sendir á
fulltrúa aðildarfyrirtækja um hádegi á mánudag. Framkvæmdastjórar allra félaga sem að fundinum standa mundu taka þátt í fundinum og öllum fundarmönnum gefst kostur á að taka þátt í umræðum.

Til upplýsinga má finna kynningu stjórnvalda frá því á föstudaginn hér.

 

Öll á sama báti

Atvinnulífið hvetur fólk og fyrirtæki til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að samkomubann vegna COVID-19 skili árangri. Með góðri samvinnu mun okkur takast að lágmarka neikvæð áhrif, tryggja heilsu fólks og verja störf og rekstur fyrirtækja.

Svona virkar samkomubannið

Tryggja skal að aldrei séu 100 manns eða fleiri í sama rými á sama tíma. Það gildir ekki aðeins um skipulagða viðburði heldur einnig um vinnustaði, veitingastaði, mötuneyti, kaffihús, skemmtistaði, verslanir, sundlaugar, líkamsræktarstöðvar og söfn. Þetta á einnig við um almenningssamgöngur og aðra sambærilegra starfsemi að alþjóðflugvöllum, alþjóðahöfnum, flugvélum og skipum undanskildum. Við fámennari mannamót skulu ávallt að vera a.m.k. tveir metrar milli fólks og skal vera gott aðgengi að handþvotti og handspritti. Þá þarf að skipuleggja rými á vinnustöðum þannig að minnst tveir metrar séu á milli fólks, eins og mögulegt er. Samkomubannið gildir í fjórar vikur til miðnættis aðfaranóttar mánudagsins 13. apríl.

Vinnum saman

Ríkisstjórnin, Seðlabankinn, atvinnulífið og launafólk róa að því öllum árum að minnka bæði skammtímaáhrif af Covid-19 á fólk og fyrirtæki og langtímaáhrif á þjóðarbúið. Við munum vinna náið með aðildarfyrirtækjum okkar og stjórnvöldum og markmiðið er að þessar mikilvægu aðgerðir gangi snurðulaust fyrir sig.

Nánari upplýsingar á www.covid.is