Fráveitustöð óstarfhæf vegna blautklúta

Hreinsistöð fráveitu við Klettagarða er nú óstarfhæf og fer óhreinsað skólp í sjó. Ástæðan er gríðarlegt magn af blautklútum, t.a.m. sótthreinsiklútum, í fráveitukerfinu. Svo virðist sem magn slíkra klúta, sem hent er í salerni, hafi aukist margfalt undanfarna daga og hefur það skapað mikið álag á allan búnað hreinsistöðva og starfsfólk.

Nú er svo komið að stöðva hefur þurft dælur og verið er að hreinsa þær og annan búnað stöðvarinnar.

Veitur sendu frá sér tilkynningu vegna þessa á föstudag þar sem fólk var hvatt til að henda alls ekki rusli eins og blautklútum í klósett, heldur í ruslið. Ekki bar sú hvatning tilætlaðan árangur að því er virðist.

 

Rafrænir upplýsingafundir fyrir stjórnendur aðildarfyrirtækja

Boðað er til þriggja rafrænna upplýsingafunda á mánudaginn fyrir stjórnendur aðildarfyrirtækja um viðfangsefni sem atvinnulífið stendur nú frammi fyrir vegna COVID 19. Tenglar á fundina verða sendir á
fulltrúa aðildarfyrirtækja um hádegi á mánudag. Framkvæmdastjórar allra félaga sem að fundinum standa mundu taka þátt í fundinum og öllum fundarmönnum gefst kostur á að taka þátt í umræðum.

Til upplýsinga má finna kynningu stjórnvalda frá því á föstudaginn hér.

 

Öll á sama báti

Atvinnulífið hvetur fólk og fyrirtæki til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að samkomubann vegna COVID-19 skili árangri. Með góðri samvinnu mun okkur takast að lágmarka neikvæð áhrif, tryggja heilsu fólks og verja störf og rekstur fyrirtækja.

Svona virkar samkomubannið

Tryggja skal að aldrei séu 100 manns eða fleiri í sama rými á sama tíma. Það gildir ekki aðeins um skipulagða viðburði heldur einnig um vinnustaði, veitingastaði, mötuneyti, kaffihús, skemmtistaði, verslanir, sundlaugar, líkamsræktarstöðvar og söfn. Þetta á einnig við um almenningssamgöngur og aðra sambærilegra starfsemi að alþjóðflugvöllum, alþjóðahöfnum, flugvélum og skipum undanskildum. Við fámennari mannamót skulu ávallt að vera a.m.k. tveir metrar milli fólks og skal vera gott aðgengi að handþvotti og handspritti. Þá þarf að skipuleggja rými á vinnustöðum þannig að minnst tveir metrar séu á milli fólks, eins og mögulegt er. Samkomubannið gildir í fjórar vikur til miðnættis aðfaranóttar mánudagsins 13. apríl.

Vinnum saman

Ríkisstjórnin, Seðlabankinn, atvinnulífið og launafólk róa að því öllum árum að minnka bæði skammtímaáhrif af Covid-19 á fólk og fyrirtæki og langtímaáhrif á þjóðarbúið. Við munum vinna náið með aðildarfyrirtækjum okkar og stjórnvöldum og markmiðið er að þessar mikilvægu aðgerðir gangi snurðulaust fyrir sig.

Nánari upplýsingar á www.covid.is

Mikil aukning á blautklútum í fráveitukerfinu

Gríðarlegt magn af rusli berst nú í hreinsistöðvar fráveitu Veitna í Klettagörðum og í Ánanaustum, samkvæmt tilkynningu frá Veitum. Magn blautklúta, sem hent er í salerni, hafi aukist margfalt undanfarna daga og skapar það mikið álag á allan búnað hreinsistöðva og starfsfólk. Mikil vinna og kostnaður felst í því að hreinsa dælur og farga ruslinu og þegar álag er mikið aukast líkur á bilunum í búnaði með tilheyrandi afleiðingum.

Við hvetjum fólk til að nota ekki klósettin sem ruslafötur. Blautklútar, hvort sem þeir eru notaðir á andlit og líkama eða til þrifa og sótthreinsunar, eiga heima í ruslinu.

Grunnþjónustan varin í COVID-19 faraldri

Aðildarfyrirtæki Samorku flokkast sem samfélagslega mikilvægir innviðir og gripið hefur verið til róttækra aðgerða til þess að tryggja að starfsemi þeirra geti haldið áfram þannig að grunnþjónustan í landinu, eins og rafmagn, hitaveita, fráveita og vatnsveita, starfi eðlilega þrátt fyrir COVID-19 faraldurinn.

Eins og fjallað var um hjá RÚV hefur verið gripið til mikilla ráðstafana í orku- og veitufyrirtækjum landsins. Stærstur hluti starfsfólks vinnur heima, nema þeir sem alls ekki geta það eða þurfa að vera á staðnum til að reka stjórnstöðvar og þá er starfsfólkinu skipt upp í hópa sem hittast ekki. Langt er síðan tekið var fyrir fundi og tekið var fyrir heimsóknir utanaðkomandi aðila í orku- og veitufyrirtækin. Þetta er gert til að minnka líkur á smiti.

Grunnþjónustan í landinu virkar ekki nema þegar starfsfólkið er til staðar til að reka kerfin. Því er mikilvægt að gripið sé til svo umfangsmikilla aðgerða svo við getum áfram fengið gott drykkjarvatn, getum gengið að góðri fráveituþjónustu, notið þess að híbýli okkar séu hlý og góð og að við fáum rafmagn í innstungurnar.

Samorka vill þakka öllu starfsfólki orku- og veitufyrirtækjanna sem hefur brugðist hratt og rétt við í krefjandi aðstæðum.

Kristinn Harðarson til ON

Can only be used directly for ON – Iceland.

Kristinn Harðarson hefur verið ráðinn forstöðumaður virkjanareksturs hjá Orku náttúrunnar (ON). Kristinn hefur starfað undanfarin 14 ár hjá álframleiðandanum Alcoa, lengst af sem framkvæmdastjóri álframleiðslu hjá Alcoa Fjarðaáli en einnig sem framkvæmdastjóri fjárfestinga og framleiðsluþróunar sem og framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar. Frá 2019 starfaði Kristinn hjá Alcoa Corporation í Pittsburgh í Bandaríkjunum.

Kristinn Harðarson hefur verið ráðinn forstöðumaður virkjanareksturs hjá Orku náttúrunnar (ON). Kristinn hefur starfað undanfarin 14 ár hjá álframleiðandanum Alcoa, lengst af sem framkvæmdastjóri álframleiðslu hjá Alcoa Fjarðaáli en einnig sem framkvæmdastjóri fjárfestinga og framleiðsluþróunar sem og framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar. Frá 2019 starfaði Kristinn hjá Alcoa Corporation í Pittsburgh í Bandaríkjunum.

Kristinn er með meistaragráðu í rekstrarverkfræði frá tækniháskólanum í Danmörku (DTU) og B.Sc. gráðu í iðnaðartæknifræði frá Tækniskóla Íslands. Hann mun að auki útskrifast með MBA gráðu frá Háskóla Íslands nú í vor.

Berglind Rán Ólafsdóttir framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar:
„Það er okkur mikils virði að fá mann með jafn mikla og víðtæka reynslu og Kristinn í framkvæmdastjórn ON. Umhverfis – og öryggismál skipa ríkan sess í starfsemi okkar og mun reynsla Kristins gagnast ON vel þegar kemur að því að ná metnaðarfullum markmiðum okkar um kolefnishlutleysi virkjanareksturins, uppbyggingu á umhverfisvænni framleiðslustarfsemi í Jarðhitagarði ON sem og áframhaldandi þróun öryggismenningar fyrirtækisins.“

Orka náttúrunnar á og rekur tvær jarðgufuvirkjanir, á Hellisheiði og Nesjavöllum og vatnsaflsvirkjun í Andakílsá í Borgarfirði. Jarðgufuvirkjanir leggja til rúman helming heita vatnsins í hitaveitunni á höfuðborgarsvæðinu og vinna rafmagn fyrir almennan markað og stórnotendur.

Skrifstofa Samorku lokuð – Starfsfólk til staðar í fjarvinnu

Skrifstofa Samorku verður að mestu leyti lokuð á meðan á samkomubanni stendur á Íslandi. Þetta er varúðarráðstöfun til að minnka líkur á útbreiðslu kórónaveirunnar.

Starfsfólk Samorku vinnur heiman frá og hægt er að ná í alla í síma, með tölvupósti og á fjarfundaforritinu Teams.

Við hvetjum starfsfólk aðildarfélaga að vera í góðu sambandi og nú sem fyrr er mikilvægt að miðla þekkingu og standa þétt saman á óvissutímum.

 

Fjórir nýir kjörnir í stjórn Samorku

Gestur Pétursson, forstjóri Veitna og Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, voru í dag kjörnir fulltrúar sinna fyrirtækja í stjórn Samorku á aðalfundi samtakanna. Sigurður Þór Haraldsson, veitustjóri hjá Selfossveitum og Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku, voru einnig kjörnir í stjórn í fyrsta sinn.

Þá var Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, endurkjörinn í stjórn Samorku til næstu tveggja ára.

Í stjórn sitja jafnframt áfram þau Helgi Jóhannesson, forstjóri Norðurorku, formaður stjórnar, og Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, varaformaður stjórnar Samorku.

Þá tóku tveir nýir varamenn sæti í stjórn Samorku í dag; þau Arndís Ósk Ólafsdóttir, forstöðumaður hjá Veitum og Gunnar Hrafn Gunnarsson, framkvæmdastjóri Orkuveitu Húsavíkur. Þau Guðbjörg Marteinsdóttir, fjármálastjóri RARIK og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, voru endurkjörin varamenn í stjórn.

Aðalfundur Samorku var með óhefðbundnum hætti og fór fram í fjarfundi vegna COVID-19 faraldursins. Um varúðarráðstöfun var að ræða.

Stjórn Samorku, að loknum aðalfundi 2020, skipa:

Aðalmenn:

Berglind Rán Ólafsdóttir, Orku náttúrunnar
Gestur Pétursson, Veitum
Guðmundur Ingi Ásmundsson, Landsneti
Helgi Jóhannesson, Norðurorku, formaður stjórnar
Kristín Linda Árnadóttir, Landsvirkjun
Sigurður Þór Haraldsson, Selfossveitum
Tómas Már Sigurðsson, HS Orku

Varamenn:

Arndís Ósk Ólafsdóttir, Veitum
Elías Jónatansson, Orkubúi Vestfjarða
Guðbjörg Marteinsdóttir, RARIK
Gunnar Hrafn Gunnarsson, Orkuveitu Húsavíkur
Hörður Arnarson, Landsvirkjun

Ársfundi frestað


Í ljósi þess að hættustigi almannavarna hefur verið lýst yfir vegna COVID-19 hefur verið ákveðið að grípa til þeirrar varúðarráðstöfunar að fresta ársfundi Samorku, sem átti að fara fram þriðjudaginn 10. mars í Hörpu. Aðildarfyrirtæki Samorku eru öll flokkuð sem samfélagslega mikilvægir innviðir sem öll önnur fyrirtæki og heimili í landinu nýta.

Auk þess verður sýningu á hreinorkufarartækjum og lausnum tengdum orkuskiptum sem halda átti samhliða ársfundinum frestað.

Tilkynnt verður um nýja dagsetningu fyrir ársfundinn og sýninguna við fyrsta tækifæri.