10. mars 2021 Ályktun aðalfundar 2021 Eftirfarandi ályktun var samþykkt á aðalfundi Samorku 10. mars 2021: Ísland óháð jarðefnaeldsneyti Samorka fagnar því að fram sé komin ný orkustefna fyrir Ísland til ársins 2050 sem unnin var í þverpólitísku samstarfi. Stefnan er framsýn og verður leiðarljós í orkumálum þjóðarinnar. Í henni er meðal annars lögð áhersla á orkuöryggi, orkuskipti, að lágmarka sóun, fullnýtingu auðlindastrauma og að hámarka verðmætasköpun, um leið og gætt er að náttúru og umhverfi. Með markvissum aðgerðum skal því takmarki náð að Ísland verði jarðefnaeldsneytislaust. Að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti er markmið sem sjálfsagt er að stefna á í landi sem er í fararbroddi á heimsvísu í nýtingu endurnýjanlegrar orku. Í dag stendur endurnýjanleg orka undir raforku- og húshitunarþörf í landinu og það er bæði spennandi og nauðsynlegt verkefni að skipta jarðefnaeldsneyti út fyrir græna orku á öðrum sviðum samfélagsins, s.s. í samgöngum, svo við getum sjálf staðið undir allri orkuþörf landsins. Samorka fagnar því að áhersla sé sett á jafnt aðgengi að orku um allt land og öfluga innviði svo af þessu markmiði megi verða. Græn endurreisn framundan Samorka tekur undir að mikilvægt sé að leggja áherslu á græna endurreisn í kjölfar COVID-19 heimsfaraldursins. Með því að styðja við nýjar, grænar lausnir leggjum við enn okkar af mörkum til loftslagsmála í heiminum auk þess að búa til tækifæri til aukinnar gjaldeyrissköpunar. Á sama tíma þarf að hlúa áfram að þeirri verðmætasköpun sem fyrir er í landinu og byggir á nýtingu endurnýjanlegrar orku. Til að fylgja grænni endurreisn úr hlaði þurfa sterkir innviðir að vera til staðar fyrir raforkuflutning og dreifingu. Einnig þarf hreint og heilnæmt drykkjarvatn og góða fráveitu. Ekki síst þarf hagkvæma græna orku í formi rafmagns og heits vatns til að knýja nýjar lausnir og atvinnuuppbyggingu um allt land. Án grænnar orku næst ekki græn endurreisn. Orku- og veitufyrirtækin í landinu leika lykilhlutverk í grænni endurreisn samfélagsins. Innan fyrirtækjanna hefur árum saman verið lögð áhersla á nýsköpun og þróun sem hefur skilað sér í nýjum tæknilausnum og ávinningi fyrir samfélagið og loftslagið. Þessi þekking er mikilvæg þegar kemur að því að leysa þau verkefni sem orku- og veitufyrirtækjunum er ætlað í þeirri vegferð sem framundan er. Græn orka er lausnin Á sama tíma og sett eru markmið um að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti og þörfin fyrir græna endurreisn blasir við, liggja fyrir Alþingi tillögur um umsvifamiklar takmarkanir á stórum hluta landsins sem draga verulega úr möguleikum til að uppfylla framtíðarþarfir þjóðarinnar fyrir græna orku og uppbyggingu grænna innviða fyrir alla landsmenn. Ekki má gleyma því að græn orka er lausnin við þeim viðfangsefnum sem við glímum við hér á landi sem og í heiminum öllum. Það er mjög mikilvægt að orkuþörf þjóðarinnar til langs tíma sé metin og mið tekið af orkuskiptum, alþjóðlegum markmiðum í loftslagsmálum, áherslu á græna nýsköpun, áframhaldandi atvinnuuppbyggingu, verðmætasköpun og fjölgun landsmanna. Komandi kynslóðir þurfa að hafa sjálfsákvörðunarrétt og sveigjanleika hvað varðar nýtingu jarðvarma, vindorku, vatnsafls og annarrar grænnar orku til hagsbóta fyrir samfélagið og til að stuðla að sjálfbærni. Áður en frekari ákvarðanir sem hamla vinnslu, flutningi og dreifingu grænnar orku eru teknar er nauðsynlegt að því sé svarað hvaðan hreina orkan, sem uppfylla á þarfir samfélagsins nú og til framtíðar, eigi að koma. Einfaldara og skilvirkara regluverk nauðsynlegt Góð lagaumgjörð er forsenda þess að orku- og veitufyrirtæki landsins geti sinnt þeirri grunnþjónustu sem samfélagið allt byggir á. Núverandi regluverk framkvæmda styður ekki við nauðsynlegt viðhald og styrkingu orkuinnviða. Nauðsynlegt er að bæta úr því. Samorka leggur til að fram fari heildarendurskoðun á ferli rammaáætlunar eða hún lögð niður, þannig að fram komi nýtt skilvirkt fyrirkomulag sem tryggi að ákvarðanir um nýtingu eða vernd orkuauðlinda séu teknar með heildarhagsmuni samfélagsins að leiðarljósi. Samorka kallar eftir samráði við endurskoðun rammaáætlunarferlisins eða annars fyrirkomulags sem komið yrði á, og er tilbúin til að taka þátt í slíkri vinnu. Einnig er mikilvægt að um vindorku sé gott lagaumhverfi sem liðki fyrir hagnýtingu vinds í þágu samfélagsins en horfi um leið til umhverfisins. Fyrirliggjandi frumvarp um vindorku gengur ekki nógu langt í þeim efnum.