15. mars 2022 Alor hlaut Nýsköpunarverðlaun Samorku 2022 Fyrirtækið Alor hlaut í dag Nýsköpunarverðlaun Samorku fyrir að vera framúrskarandi sprota- og/eða nýsköpunarfyrirtæki á sviði orku- og veitumála. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ráðherra háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarmála ásamt Valgeiri Þorvaldssyni stjórnarformanni Alor, Lindu Fanneyju Valgeirsdóttur framkvæmdastýra, Rakel Evu Sævarsdóttur stjórnarkonu Alor og Páli Erland framkvæmdastjóra Samorku. Ljósmynd: Eyþór Árnason. Nýsköpunarfyrirtækið Alor ehf. var stofnað árið 2020 í því skyni að þróa, framleiða og markaðssetja umhverfisvænar álrafhlöður og -orkugeymslur. Í nýsköpuninni felst að stefnt er framleiðslu á álrafhlöðum af mismunandi stærðum, þ.e. frá litlum rafhlöðum og rafgeymum yfir í stórar orkugeymslur í gámastærðum. Í orkuskiptum frá jarðefnaeldsneyti yfir í sjálfbæra græna orku felast fjölmargar áskoranir og um leið tækifæri til þess að þróa lausnir sem styðja við nýtingu raforku á öllum sviðum. Bein nýting raforku er alltaf fyrsti kostur þar sem orkunýtni er hámörkuð og því mikilvægt að leita leiða til þess að aðgengi að orkunni sé sem best, á sem flestum stöðum og tímum og við ólíkar aðstæður. Þar gegna rafhlöður lykilhlutverki. Nýsköpun sem leitar leiða til þess að framleiðsla rafhlaða verði umhverfisvæn, sjálfbær og þannig með endurvinnslumöguleikum er því gríðarlega spennandi enda ljóst að eftirspurn eftir rafhlöðum mun margfaldast á næstu árum. Að takast á við að þróa og prófa nýja tækni er því afar mikilvægt ekki síst í ljósi þess að rafhlöðuframleiðsla er í dag háð aðgengi að mörgum mjög takmörkuðum auðlindum og endurvinnsla takmörkunum háð. Fulltrúar Alor taka við verðlaununum á ársfundi Samorku 15. mars 2022. Með þetta í huga var niðurstaða dómnefndar nýsköpunarverðlauna Samorku að veita Alor ehf. verðlaunin árið 2022 og hvetja þannig fyrirtækið til dáða í spennandi vegferð þeirra. Náist markmiðin er ljóst að um byltingu verður að ræða og því ákaflega ánægjulegt það styttist í að frumgerð rafhlöðutækninnar líti dagsins ljós. Alls bárust átta tilnefningar og valdi dómnefnd fagaðila sigurvegara.