28. júlí 2025 Aðildarríki ESB fá gula spjaldið frá Brussel Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins þrýstir nú á öll aðildarríkin nema eitt (Danmörku) að innleiða sem fyrst í landslög tilskipanir um að efla hlut endurnýjanlegrar orku í orkunotkun innan ESB. Sú aukning er hluti af „Green Deal“ sáttmálanum og er nauðsynleg til að ná metnaðarfullum markmiðum á þessu sviði innan fimm ára. Framkvæmdastjórnin hefur því sent ríkjunum 26 formlegt áminningarbréf og getur síðan gripið til frekari aðgerða. Árið 2023 samþykktu aðildaríki ESB að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa í heildar orkunotkun upp í 42.5% árið 2030. Hann var 24.5% árið 2023 samkvæmt Eurostat og hafði þá næstum því þrefaldast frá 2004 þegar hlutfall grænnar orku af orkunotkuninni var aðeins 9.6%. En betur má ef duga skal og það er vissulega töluvert stökk að fara upp í 42.5% eftir aðeins fimm ár. Þetta skýrir eflaust ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar um að gefa 26 af aðildarríkjunum gula spjaldið. Frestur ríkjanna til að innleiða viðeigandi tilskipanir rann út í maí s.l. og í tilkynningu framkvæmdastjórnarinnar frá 24. júlí kemur fram að ríkin 26 fái nú tvo mánuði til að klára innleiðinguna. Geri þau það ekki fá þau enn strangari viðvörun og eiga jafnvel von á háum sektum ef þau bæta ekki ráð sitt, samkvæmt frétt Politico. Innleiðing nauðsynlegrar löggjafar er forsenda fyrir því að efla hreina orkuframleiðslu innan Evrópusambandsins og minnka enn frekar losun gróðurhúsalofttegunda í orkugeiranum. Hann er nú ábyrgur fyrir um 75% af heildar losun innan ESB, segir Politico og vitnar í framkvæmdastjórn ESB sem einnig minnir á að meiri endurnýjanleg orka innan sambandsins styrki orkuöryggi. Tilkynning framkvæmdastjórnar ESB: Commission takes action to ensure complete and timely transposition of EU directives: Aðildarríki ESB fá gula spjaldið frá Brussel