Aðalfundur Samorku kallar eftir aðgerðum í orkumálum

Aðalfundur Samorku leggur ríka áherslu á nauðsyn þess að ráðast í umfangsmiklar framkvæmdir orku- og veitumannvirkja til að tryggja orkuöryggi, viðnámsþrótt og sjálfbæra nýtingu auðlinda. Þetta kemur fram í ályktun samtakanna sem samþykkt var á aðalfundi samtakanna í dag. Fjárfestingar og uppbygging orku- og veituinnviða er nauðsynleg til að stuðla að áframhaldandi velsæld samfélagsins og vexti. Óvissa á alþjóðavettvangi og hröð þróun í Evrópu er hvatning fyrir Ísland til að styrkja stöðu sína sem leiðandi þjóð í grænni orkunýtingu og loftslagsmálum.  

Samorka leggur áherslu á að stjórnvöld tryggi að hagkvæmir kostir í nýtingu vatnsafls og jarðvarma fái framgang, horft verði til vindorku sem mögulegrar þriðju stoðar í orkuframleiðslu landsins, ásamt því að bregðast við vaxandi þörf fyrir heitt vatn. 

Orka sem öryggismál

Samorka bendir á að orka sé lykilþáttur í öryggi þjóðarinnar. Til að draga úr áhættu vegna ytri áfalla þarf orkukerfið að vera fjölbreyttara og dreifðara, með aukinni innlendri sjálfbærri orku. Þá er brýnt að tryggja vöktun og vernd mikilvægra orku- og veituinnviða landsins. 

Aðgerðir nauðsynlegar til að tryggja framtíðina

Samorka leggur áherslu á mikilvægi vatnsverndar og góðrar umgengni um þá verðmætu auðlind sem felst í fersku neysluvatni. Þá kemur fram að miklar breytingar séu framundan í umgjörð fráveitu og þar þurfi að taka mið af íslenskum aðstæðum um leið og víða þurfi að gera betur í hreinsun skólps frá þéttbýli og uppbyggingu blágrænna ofanvatnslausna.  

Aðalfundurinn undirstrikar nauðsyn þess að bæta stjórnsýslu, stytta leyfisveitingaferla og tryggja aðkomu sveitarfélaga í uppbyggingu orku- og veituinnviða. Með skýrum markmiðum og réttri stefnu getur Ísland áfram verið í fremstu röð í sjálfbærri, grænni framtíð og tækifæri og lífsgæði tryggð fyrir land og þjóð.