Aðalfundur Samorku ályktar um loftslagsmál

Ályktun aðalfundar Samorku      
Reykjavík, 9. febrúar 2007

Loftslagsmálin, Ísland og endurnýjanlegir orkugjafar 
Ein mikilvægasta áskorun veraldar nú um stundir er baráttan gegn vaxandi losun gróðurhúsalofttegunda. Í nýrri skýrslu vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar er kveðið enn fastar að orði en áður um þá ályktun að mannkynið hafi valdið breytingum til hlýnunar á loftslagi. Vandinn sem við er að etja er fyrst og fremst til kominn vegna brennslu á jarðefnaeldsneyti – kolum, olíu og gasi – og þeirri losun gróðurhúsalofttegunda sem henni fylgir.
 
Áhersla á aukinn hlut endurnýjanlegra orkugjafa
Fyrir vikið er nú um allan heim lögð áhersla á mikilvægi þess að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa og stuðla að orkusparnaði. Á dögunum setti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sér til dæmis markmið um að árið 2020 yrðu 20% heildarorkunotkunar innan sambandsins fengin frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Áður hefur Evrópusambandið sett sér markmið um að árið 2012 yrði þetta hlutfall 12% en nú er ljóst að það markmið mun ekki nást og í dag er hlutfallið um 7%.
 
Sérstaða Íslands viðurkennd
Ísland er hins vegar í einstakri stöðu í þessu samhengi, en hér eru nú um 72% heildarorkunýtingar fengin frá endurnýjanlegum orkugjöfum, og nær 100% ef horft er til raforkuframleiðslu og húshitunar. Útstreymi gróðurhúsalofttegunda vegna nýtingar þessara endurnýjanlegu orkulinda er hverfandi samanborið við brennslu jarðefnaeldsneytis. Þetta hefur alþjóðasamfélagið viðurkennt og með sérstakri samþykkt við svonefnda Kyoto-bókun við loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna var Íslandi heimilað að auka útstreymi vegna einstakra iðjuvera, enda yrðu loftslagsáhrif af starfsemi þessara iðjuvera annars staðar mun meiri en hér á landi. Nýlega var nefnt dæmi um sjöfalda losun gróðurhúsalofttegunda vegna álvers sem byggir á orku frá kolum, miðað við álver sem nú er verið að reisa hér á landi.
 
Útrás þekkingar
Íslensk orkufyrirtæki, verkfræðistofur og rannsóknarstofnanir ýmiss konar hafa áratugum saman verið í fararbroddi við mótun þekkingar á hagnýtingu endurnýjanlegra orkulinda. Aðalfundur Samorku telur það þess vegna mikið fagnaðarefni að um þessar mundir eru íslenskir fjárfestar að hefja aukna útrás í krafti íslenskrar þekkingar á þessu sviði. Einstakar virkjunarframkvæmdir verða ávallt tilefni skoðanaskipta út frá sjónarmiðum náttúruverndar. Hlýnun lofthjúps jarðar kallar hins vegar á aukinn hlut endurnýjanlegra orkugjafa. Því er ljóst að auk nýtingar á endurnýjanlegum orkulindum hérlendis, og með frumkvöðlastarfsemi við þróun nýrra vistvænna orkugjafa, munu Íslendingar með útrás þekkingar hins íslenska orkugeira leggja sitt af mörkum í einu mikilvægasta verkefni samtímans – baráttunni gegn hlýnun lofthjúps jarðar.