Að gefnum tilefnum: Röðun í nýtingarflokk þýðir ekki að virkjun rísi

Samorka vill að gefnum tilefnum minna á að ákvörðun um að raða orkukosti í nýtingarflokk rammaáætlunar þarf alls ekki að þýða að umrædd virkjun eigi eftir að rísa. Að lokinni röðun í nýtingarflokk tekur við vandað, faglegt og lýðræðislegt stjórnsýsluferli mats á umhverfisáhrifum framkvæmda, auk skipulagsferla og ferla leyfisveitinga. Út úr þeim ferlum getur hæglega komið sú niðurstaða að ekkert verði af umræddum framkvæmdum, eða að á upphaflegum hugmyndum verði gerðar verulegar breytingar og kveðið á um að grípa þurfi til ýmiss konar mótvægisaðgerða. Hið sama á raunar við um röðun í verndarflokk rammaáætlunar. Sú röðun hefur í för með sér að hefja eigi undirbúning friðlýsingar á grundvelli laga um náttúruvernd eða á grundvelli þjóðminjalaga. Einnig þar er um að ræða vandað og lýðræðislegt stjórnsýsluferli.

Vinna verkefnisstjórnar rammaáætlunar fer meðal annars fram á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum áætlana. Ferli umhverfismats framkvæmda tekur við síðar, hafi umræddum kosti verið raðað í nýtingarflokk og kjósi orkufyrirtæki að þróa kostinn áfram. Sama á við um skipulagsferli. 

Ómakleg gagnrýni
Í vikunni hefur heyrst hávær gagnrýni á Orkustofnun fyrir þann lista yfir orkukosti sem stofnunin hefur lagt fyrir verkefnisstjórn rammaáætlunar til umfjöllunar, sem sumum hafði áður verið raðað í verndarflokk og öðrum áður í nýtingarflokk. Orkustofnun er þarna að vinna sína vinnu samkvæmt 9. gr. laga nr. 48/2011 um rammaáætlun. Fjöldi kosta er til umfjöllunar en aðferðafræði rammaáætlunar byggir að verulegu leyti á innbyrðis samanburði orkukosta. Meðal annars þess vegna er eðlilegt að vænlegustu og hagkvæmustu orkukostirnir séu þar til umfjöllunar jafnframt kostum sem sjálfsagt fáir styðja að verði nýttir til orkuframleiðslu. Þannig næst eðlilegur samanburður og eðlilegt samhengi í starfið.

Einnig hefur heyrst hávær gagnrýni á boðaða breytingartillögu meirihluta atvinnuveganefndar Alþingis við tillögu til þingsályktunar um rammaáætlun. Þar virðist vera ríkjandi það sjónarmið að Alþingi hafi ekki heimild til að gera breytingar á framlögðu þingmáli ráðherra, sem er sjónarmið sem vissulega vekur athygli.

Því miður hefur mikið borið á gífuryrðum í þessari umræðu, meðal annars af hendi aðila sem hljóta að vita vetur. Fullyrðingar um að með þessu sé verið að vega að öllum friði um rammaáætlun og hann sé jafnvel úti fyrir vikið vekja furðu, enda einfaldlega um eðlileg stjórnsýsluferli að ræða á grundvelli viðkomandi laga.

Hér má sjá einfaldaða mynd Eflu verkfræðistofu af ferli orkuöflunar, eins og það lítur að loknu ferli rammaáætlunar.