55 milljarða skattaáhrif orku- og veitugeirans á ári

LEIÐRÉTTING ágúst 2025: Við uppfærslu skýrsluhöfunda, Intellecon, á gögnum árið 2025 kom í ljós villa í útreikningum sem leiddi í ljós að niðurstöður um heildar skattaleg áhrif orku- og veitugeirans voru ofmetnar. Í skýrslunni voru þau metin á 96,4 milljarða króna árið 2022 en hið rétta er að skattaleg áhrif voru um 55,5 milljarðar króna árið 2022. Skýrslan hefur verið yfirfarin með hliðsjón af þessum mistökum sem höfðu eingöngu áhrif á heildarfjárhæð skattaáhrifa geirans. Aðrar niðurstöður skýrslunnar hafa verið staðfestar. Fyrir nánari upplýsingar bendir Samorka á skýrsluhöfunda. Beðist er velvirðingar á þeim misskilningi sem upphafleg útgáfa skýrslunnar kann að hafa valdið.

Fréttin hefur verið leiðrétt í samræmi við ofangreint.

Skattaleg áhrif orku- og veitugeirans eru rúmlega 55 milljarðar á ári hverju, eða um þrjú prósent af heildartekjum ríkissjóðs á árinu 2022. Framleiðsluverðmæti á starfsfólk er það hæsta hér á landi.

Þetta kemur fram í nýrri úttekt Gunnars Haraldssonar hagfræðings Intellicon um þjóðhagslega þýðingu orku- og veituinnviða sem kynnt var á ársfundi Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja, í Hörpu í dag.

Í úttektinni kemur fram að verðmæti orku- og veitustarfsemi fyrir samfélagið allt verði seint ofmetin, enda er hún undirstaða allra annarra atvinnugreina og lífsgæða í landinu. Rekstur og arðsemi orku- og veitufyrirtækjanna sjálfra er stöðug.

Óvissa um orkuöryggi næstu áratuga ógni hins vegar þessari stöðu og núverandi skerðingar hafi þegar valdið þjóðarbúinu tjóni upp á marga milljarða. Ekki er útséð um hver endanleg áhrif þessara takmarkana yrðu.

Í ályktun aðalfundar Samorku er kallað eftir skýrri sýn frá stjórnvöldum um hvernig ná eigi markmiðum um kolefnishlutleysi, þar sem ljóst sé að á þeim vettvangi hafi orðið afturför á undanförnum mánuðum. Samtökin kalla einnig eftir því að leyfisveitingarferli verði einfölduð, þau gerð skilvirkari og að eitt og sama ferlið gildi um allar atvinnugreinar. Samorka leggur til að lög um verndar- og orkunýtingaráætlun verði lögð af.

„Samorka leggur áherslu á að orkuframleiðsla verði aukin og flýtt fyrir uppbyggingu flutnings- og dreifikerfa, að stjórnsýsla verði einfölduð og gerð skilvirkari, að orkunýtni verði aukin og að heildsölu- og smásölumarkaður sé skilvirkur“ segir Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku. Þá styðja samtökin áform stjórnvalda um að vindorka verði ein af grunnstoðum orkuöflunar landsins, auk vatnsafls og jarðhita.

Ályktun Samorku í heild sinni: