17. september 2004 Fundur um heilnæmt neysluvatn Haraldur sagði frá þeim vatnsbornu sýkingum sem glímt hefði verið við hér á landi m.a. taugaveiki fyrr á tímum sem hefði flýtt fyrir lagningu vatnsveitna víða um land. Hann sagði einnig frá sýkingum sem glímt hefði verið við á seinni árum s.s. eins og norovírus sem kom upp í sumar á Húsafelli og í Mývatnsveit. Þó erfitt væri að sanna að þær berist með neysluvatni þá hefði í fyrsta sinn verið sýnt fram á tengsl sýkinganna við neysluvatn hér á landi. Einfrumungurinn Giardia lambia, sem veldur iðrasýkingu væri t.d. mjög algengur á Akranesi. Neysluvatn er þar tekið úr yfirborðslindum en ekki hefur verið sýnt fram á tengsl vatnsins við þessar iðrasýkingar. Vert væri þó að athuga hvort hann lifir af útfjólubláa geislun sem þar er. Haraldur lagði áherslu á að við þyrftum að vera vakandi fyrir því að vernda vatnsból og vatnstökusvæði. Þann 8. september árið 1854 fjarlægði læknirinn John Snow handfangið af brunninum í Broad Street í Soho hverfinu í London (nú Broadwick Street). Hann hafði með faraldsfræðilegum rannsóknum komist að því að flestir þeirra 700 manna sem létust þar á skömmum tíma höfðu neytt vatns úr þessum ákveðna brunni. Litið er á þetta atvik sem táknrænt fyrir baráttu fyrir heilnæmu drykkjarvatni. Seinna kom í ljós að skolpleiðsla lá rétt við brunninn. Var hún brotin og mengaði vatnið í brunninum. Hann komst að þessari niðurstöðu löngu áður en bakterían sem veldur kóleru fannst. Á þessum tíma var því haldið fram að kólera smitaðist með andardrætti á milli fólks en hann trúði því ekki þar sem hann hafði annast marga sjúklinga en ekki veikst og leitaði því að öðrum orsökum. Fleiri myndir frá fundinum