28. september 2005 Hreinn ávinningur af umhverfisstjórnun Umhverfistjórnunarkerfin sem rætt var um voru ISO 14001, Norræni svanurinn, EMAS (Eco-Management and Audit Scheme), Evrópublómið, Green Globe 21, Bláfáninn og Lífræn vottun. Þessir sömu aðilar og stóðu fyrir ráðstefnunni hafa gefið út kynningarrit um umhverfisvottanir, sem dreift var með ráðstefnugögnum. Nokkur íslensk fyrirtæki eru með ISO 14001 og Svaninn, eitt fyrirtæki er með Green Globe 21 sem er fyrir ferðaþjónustufyrirtæki, nokkur eru með Bláfánann sem er fyrir baðstrendur og smábátahafnir og 30-40 eru með lífræna vottun. En ekkert fyrirtæki er með EMAS né Evrópublómið. Fyrsta fyrirtækið til að fá vottað ISO 14001 var ISAL árið 1997. Orkuveita Reykjavíkur er í þann mund að fá vottun fyrir ISO 14001 og verður fyrsta orkufyrirtækið til þess hér á landi. Ávinningur er margvíslegur fyrir utan að vera beint fjárhagslegur. Það er aukin gæðavitund og ánægðari starfsmenn. Nokkuð var rætt um að umbun frá stjórnvöldum væri engin við umhverfistjórnun. Fyrirtæki þyrftu að greiða jafn há eftirlitsgjöld og önnur fyrirtæki sem ekkert gera í umhverfismálum. Og jafn strangar kröfur eru til fyrirtækja um ytra eftirlit í grænu bókhaldi. Nauðsyn er á meira samstarfi opinberra aðila og fyrirtækja til að vinna að umhverfismálum og minnka áhrif atvinnulífs a umhverfið og það er hægt að gera með því að minnka hið opinbera eftirlit með þeim sem standa sig vel. Umhverfisvitund er að eflast eins og sést á þátttöku í þessari ráðstefnu og þegar Grænfánakynslóðin tekur við breytast viðhorfin fyrir alvöru.