14. október 2020 Terra og Netpartar verðlaunuð á Umhverfisdegi atvinnulífsins Umhverfisfyrirtæki ársins er Terra en framtak ársins á sviði umhverfismála eiga Netpartar. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti þeim verðlaunin á Umhverfisdegi atvinnulífsins sem haldinn var hátíðlegur í dag. Terra hefur starfað við flokkun og söfnun endurvinnsluefna frá árinu 1984 og vinnur með fyrirtækjum, sveitarfélögum og einstaklingum í endurvinnslu og umhverfisvænni úrgangsstjórnun með áherslu á að koma öllum þeim efnum sem falla til í viðeigandi farveg og aftur inn í hringrásarhagkerfið. Terra rekur meðal annars jarðgerðarbúnað til endurnýtingar á lífrænum efnum og gerir viðskiptavinum sínum kleift að fylgjast með úrgangstölum og endurvinnsluhlutfalli í rauntíma. Gunnar Bragason, forstjóri Terra tók við verðlaununum fyrir hönd Terra. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Líf Lárusdóttir, markaðsstjóri Terra, Gunnar Bragason, forstjóri Terra, Jónína G. Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri þjónustu- og viðskiptasviðs Terra, Freyr Eyjólfsson, samskiptastjóri Terra og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA. „Þessi verðlaun eru mikil viðurkenning fyrir okkar starf og góð hvatning fyrir starfsfólk Terra. En við höfum metnað til að gera enn betur. Með nýjum markmiðum, nýjum starfrænum leiðum, grænum fjárfestingum og íslensku hugviti viljum við stíga mikilvæg og græn skref inn í framtíðina, innleiða hringrásarhagkerfi og efla mikið flokkun og endurvinnslu. Þetta viljum við gera í samvinnu við fólkið í landinu, stjórnvöld og íslensk fyrirtæki, til að draga úr mengun og gróðurhúsaáhrifum og skapa um leið hagkvæmara og betra þjóðfélag. Ég skora á okkur öll að taka umhverfis- og endurvinnslumál föstum tökum og gefa þeim það vægi sem þau þarfnast. Vörur eru framleiddar til að anna eftirspurn. Ef við sem búum þessa jörð förum að hugsa og framkvæma með það að leiðarljósi að varan sem við notum sé hluti af hringrásarhagkerfinu, að það sé búið við hönnun að gera ráð fyrir því hvað gert er við vöruna að loknum líftíma hennar, þá getum við breytt miklu. Ísland er ekki stórt land en öll skref í þessa átt eru til bóta. Við skiptum því máli. Skiljum jörðina eftir á betri stað en við tókum við henni.” Kynntu þér umhverfisstarf og stefnu Terra Netpartar eiga framtak ársins Netpartar fengu verðlaun á Umhverfisdegi atvinnulífsins í dag fyrir framtak ársins á sviði umhverfismála. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, tilkynnti verðlaunin en viðurkenninguna fá Netpartar fyrir að vera leiðandi í umhverfismálum við niðurrif bíla og sölu varahluta. Markmið Netparta hefur frá upphafi verið að stuðla að frekari nýtingu notaðra varahluta úr bifreiðum sem og að endurvinna þær með umhverfisvænum hætti til annarra hlutverka. Það leiðir af sér betri nýtingu verðmæta, stuðlar að minni sóun, minni urðun, betra umhverfi og loftslagi. Þannig gegna Netpartar hlutverki í hringrásarhagkerfinu. Framkvæmdastjóri og eigandi fyrirtækisins er Aðalheiður Jacobsen, viðskiptafræðingur og frumkvöðull. „Ég og við öll hjá Netpörtum erum yfir okkur stolt og þakklát að hafa hlotið þessa viðurkenningu frá atvinnulífinu sem er okkur sannarlega mikil hvatning. Alveg frá stofnun Netparta hafa umhverfismál og samfélagsábyrgð verið okkar leiðarljós, þar sem markmiðið er að sem mest af ónýtum bíl fari aftur í annað hvort nýtilega bílavarahluti eða í önnur hlutverk í hringrásarkerfinu. Við lítum á það sem okkar skyldu að stuðla að minni sóun og urðun fyrir betra umhverfi og loftslagi og við erum þakklát fyrir þann meðbyr sem finnum, frá bæði viðskiptavinum og öðrum.“ Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Kristín Jóhannsdóttir, almannatengill Netparta, Aðalheiður Jacobsen, framkvæmdastjóri Netparta og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA. Kynntu þér umhverfisstarf og stefnu Netparta Í valnefnd Umhverfisverðlauna atvinnulífsins sátu Bryndís Skúladóttir, formaður dómnefndar, Sigurður M. Harðarson og Gréta María Grétarsdóttir. Umhverfisdagur atvinnulífsins er árlegur viðburður en að honum standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu. Streymi af erindum dagsins má finna hér.