27. nóvember 2019 Landsvirkjun hlýtur Hvatningarverðlaun jafnréttismála Landsvirkjun hlaut í dag Hvatningarverðlaun jafnréttismála 2019. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, afhenti Herði Arnarsyni forstjóra og Selmu Svavarsdóttur, forstöðumanni á starfsmannasviði, verðlaunin á fundi um jafnréttismál í hátíðarsal Háskóla Íslands í morgun. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra, Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar, Selma Svavarsdóttir, forstöðumaður á starfsmannasviði Landsvirkjunar og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.Í rökstuðningi dómnefndar kemur meðal annars fram: „Landsvirkjun hefur lagt ríka áherslu á að skapa góða fyrirtækjamenningu þar sem jafnrétti og virðing fyrir fjölbreytileika samfélagsins liggja til grundvallar. Tekið er mið af jafnréttismálum í heildarstefnu fyrirtækisins og er ávinningurinn er áþreifanlegur. Grasrót fyrirtækisins hefur verið mjög öflug og var aðgerðaáætlun jafnréttismála mynduð úr umbótatillögum starfsfólks. Umfjöllun um jafnréttismál hefur verið tekin upp með fjölbreyttum hætti og er forstjóri eigandi verkefnisins og formaður jafnréttisnefndar. Breið nálgun við greiningu á stöðu jafnréttis í fyrirtækinu er í forgrunni. Áður fyrr var lagður fremur þröngur skilningur á jafnréttishugtakinu og lítið horft til veigamikilla atriða svo sem menningar, sýnileika kvenna og ákvörðunar- og áhrifavalds þeirra innan fyrirtækisins. Landsvirkjun hefur farið framsæknar leiðir í innri markaðssetningu á jafnrétti. Í allri jafnréttisvinnunni hefur verið haft að leiðarljósi að hjálpast að við að skilja jafnrétti og þróa vinnustaðamenninguna saman sem heild. Hjá Landsvirkjun er vilji til að hafa áhrif og miðla jafnréttisvinnu og hugmyndum í samfélaginu. Í þeirra hugum eru jafnréttismál ekki átak, það er komið til að vera. Þau eru meðvituð um hvar þau standa, hvert þau vilja komast og gera sér grein fyrir mikilvægi jafnréttis í sjálfbærum heimi.“ Hörður Arnarson forstjóri: „Jafnréttismál hafa verið í forgangi hjá okkur í Landsvirkjun undanfarin ár. Þegar lagt hefur verið af stað í slíka vegferð verður ekki aftur snúið. Með því að vinna markvisst að jafnrétti á öllum sviðum fyrirtækisins og gera breytingar á stóru og smáu erum við að sjá árangur og fyrirtækið er að þróast hraðar en áður. Það er okkur mikilvægt, því við viljum vera eftirsóknarverður vinnustaður fyrir framúrskarandi fólk af öllum kynjum. Verðlaunin eru okkur mikil hvatning til að halda áfram á sömu braut.“ Markmið með Hvatningarverðlaunum jafnréttismála er að vekja athygli á fyrirtækjum sem hafa jafnrétti að leiðarljósi í starfsemi sinni og jafnframt að hvetja önnur fyrirtæki til að gera slíkt hið sama. Verðlaunin eru veitt fyrirtæki sem hefur stuðlað að jöfnum möguleikum kynjanna til starfsframa, jöfnum launum, jafnvægi í kynjahlutföllum og aukinni vitund um þann ávinning sem jafnrétti hefur fyrir fyrirtækið og samfélagið. Að Hvatningarverðlaunum jafnréttismála standa Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð, Háskóli Íslands, Samtök atvinnulífsins og UN Women á Íslandi. Hér má lesa samantekt á aðgerðum og áherslum Landsvirkjunar í jafnréttismálum til 2021.