4. apríl 2019 OR, Veitur og Reykjavíkurborg byggja upp innviði fyrir rafbílaeigendur Í dag var undirritað samkomulag milli Reykjavíkurborgar, Orkuveitu Reykjavíkur og Veitna um stórfellda uppbyggingu innviða í borginni fyrir rafbílaeigendur. Verkefnin, sem byrjað verður á nú í ár og stendur í þrjú ár, felur í sér að komið verður upp hleðslum fyrir rafbíla við 30 starfsstöðvar Reykjavíkurborgar, 20 hleðslur á ári næstu þrjú árin verða settar upp eftir ábendingar frá íbúum og þá munu Reykjavíkurborg og OR stofna sjóð sem úthlutað verður úr til húsfélaga fjölbýlishúsa sem hafa sett upp hleðslubúnað fyrir rafbíla á sínum lóðum. Það voru þau Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Bjarni Bjarnason forstjóri OR og Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna, sem undirrituðu samkomulagið á ársfundi OR í Hörpu nú síðdegis. Þrír þættir samkomulagsins Í fyrsta lagi verða byggðir upp innviðir fyrir hleðslubúnað rafbíla á 30 fyrirfram ákveðnum stöðum við starfsstöðvar Reykjavíkurborgar eða í næsta nágrenni þeirra. Þeir sjást á meðfylgjandi uppdrætti. Á allt að 60 stöðum að auki – 20 á ári næstu þrjú árin – verða lagðar lagnir að hleðslubúnaði og hann settur upp á borgarlandi með það að markmiði að þjóna íbúum sem ekki hafa bílastæði á eigin lóð. Óskað verður eftir tillögum íbúa um staðsetningar. Reykjavíkurborg og Veitur munu velja endanlegar staðsetningar til samræmis við fjölda íbúa og önnur hagkvæmnisjónarmið. Loks munu OR og Reykjavíkurborg leggja árlega 20 milljónir króna hvor í þrjú ár í sjóð til að úthluta styrkjum til húsfélaga íbúðarhúsa sem koma upp hleðslubúnaði fyrir rafbíla. Auglýst verður eftir umsóknum og úthlutunarreglur kynntar betur.