19. febrúar 2010 Jarðhitinn sparar Íslendingum 50-60 milljarða á ári, í erlendum gjaldeyri Ætla má að um 800 þúsund tonn af olíu þyrfti til að kynda hýbýli Íslendinga. Þess í stað höfum við jarðhitann og spörum á því 50 milljarða króna á ári í olíuinnflutningi. Þetta sparar okkur jafnframt brennslu 2,5 milljón tonna af CO2 á ári, en ætla má að innan skamms gæti losunarkvóti þess magns kostað um 9 milljarða króna á heimsmarkaði. Jarðhitinn sparar Íslendingum því 50 til 60 milljarða króna á ári, sem ella færu í innflutning á oliu og – innan skamms – í kaup á losunarkvóta. Þetta kom fram í erindi Sigurðar Inga Friðleifssonar, framkvæmdastjóra Orkuseturs, á aðalfundi Samorku. Húshitun sex til níu sinnum dýrari á hinum Norðurlöndunum Sigurður fjallaði um afar sérstaka stöðu Íslands hvað varðar græna orkuframleiðslu (með vatnsafli og jarðhita) og lagði áherslu á að afrakstur auðlindarinnar rennur til almennings. Þannig kostar rúmlega 60 þúsund krónur að kynda meðalíbúð í Reykjavík, en í höfuðborgum hinna Norðurlandanna myndi sama kynding kosta á bilinu 390 til 550 þúsund krónur á ári, eða sex til níu sinnum meira. Raforka til heimila fjórfalt dýrari í Danmörku Raforkuverð til almennings er að sama skapi mun lægra hérlendis en í samanburðarlöndum, t.d. um fjórðungur af verðinu í Danmörku og rúmur þriðjungur af verðinu í Svíþjóð. Ólíkt samanburðarlöndunum hefur raforkuverð til heimila farið jafnt og þétt lækkandi hér í rúman áratug, að teknu tilliti til þróunar vísitölu neysluverðs. Sigurður sagði það stærðfræðilega ómögulegt að þau 20% raforkunnar sem færu á almennan markað gætu verið að greiða niður þau 80% orkunnar sem fara til stóriðju, eins og stundum er haldið fram. Græn orka í samgöngum o.fl. Þá fjallaði Sigurður Ingi um hvernig þessi mikla græna orkuframleiðsla hérlendis yrði tölfræðilegur fengur fyrir Evrópusambandið, sem hefur sett sér háleit markmið um aukinn hlut endurnýjanlegra orkugjafa. Loks fjallaði Sigurður Ingi m.a. um mikil tækifæri til nýtingar raforku í samgöngum hérlendis og hvatti til almennrar meðvitundar um nýtingu innlendra endurnýjanlegra orkugjafa, t.d. með notkun útihitalampa í stað gashitara. Sjá erindi Sigurðar Inga Friðleifssonar.