22. ágúst 2011 Verndarflokkur stærstur – 23% orkugetu í nýtingarflokk Miðað við áætlaða orkuvinnslugetu orkukosta sem fjallað er um í 2. áfanga rammaáætlunar gera drög að þingsályktun sem kynnt voru á dögunum ráð fyrir að orkuvinnslugeta sem nemur um 11.900 gígavatt stundum (GWh) á ári verði sett í nýtingarflokk, 11.000 GWh í biðflokk og 13.900 GWh í verndarflokk. Loks myndu um 15.100 GWh lenda utan flokkunar þar sem umræddir orkukostir eru á svæðum sem hlotið hafa friðlýsingu, en skv. lögum nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun falla þeir kostir utan flokkunar þótt til skoðunar hafi verið allt ferlið við gerð rammaáætlunar. Því má segja að um 23% orkuvinnslugetunnar sem til umfjöllunar var í vinnu verkefnisstjórnar fari í nýtingarflokk, verði þetta niðurstaðan við afgreiðslu Alþingis. Þess ber að geta að þar sem sumir orkukostir í vatnsafli útiloka aðra er heildarsumma áætlaðrar orkuvinnslugetu þó ekki samtala framangreindra (um 52.000 GWh) heldur um 47.300 GWh. Heildarraforkuvinnsla á Íslandi árið 2009 var um 16.900 GWh.