27. júní 2017 Landgræðsluhópur ON græðir sárin Landgræðsluhópur Orku náttúrunnar hófst í dag handa við að lagfæra skemmdir vegna krots mosa í Litlu Svínahlíð í Grafningi. Þar hafði verið skrifað í mosaþembuna með því að rífa upp mosa. ,,Við ætlum að freista þess að lagfæra skemmdirnar og byrjuðum björgunarverkefnið í dag. Litlar mosaþúfur voru teknar umhverfis stafina, sem höfðu verið krotaðir í mosann, og þær notaðar til að fylla í þá og þannig lokuðum við sárinu. Ég hef verið að prófa mig áfram með aðferðir við að laga svona mosakrot og mér sýnist að þessi aðferð virki vel. Það tekur samt mosaþembuna nokkur ár að jafna sig alveg. Við leggjum okkur fram við að miðla þekkingu okkar í þessum málum og ætlum að útbúa stutt kynningarmyndband sem sýnir að hver sem er getur tekið sig til og lagfært mosakrot,“ segir Magnea Magnúsdóttir, umhverfis- og landgræðslustjóri Orku náttúrunnar. Magnea er þekkt meðal landgræðslufólks fyrir aðferðir sem hún hefur þróað til að endurheimta mosabreiður og fékk hún m.a. Umhverfisverðlaun Ölfuss fyrr á árinu fyrir slíkt verkefni. Magnea segir mosaþemburnar á Íslandi einstakar á heimsvísu og hluti af sérkennum íslensks landslags. En mosakrot hefur aukist, sem eru mikil lýti og það getur tekið mosann mörg ár eða áratugi að gróa saman sé ekkert að gert. Magnea segir mikilvægt að að lagfæra skemmdir sem fyrst svo að fólki detti síður í hug að herma eftir. Mosaþembur eru einnig mjög viðkvæmar og skemmdir á þeim, eins og mosakrot, geta valdið frekara rofi á mosanum og þannig stækka sárin t.d. við að yfirborðsvatn rennur eftir þeim. Aðgerðirnar í Litlu Svínahlíð voru teknar upp á myndband og því verður dreift sem kennslumyndbandi. Þannig ættu sem flestir að geta nýtt sér aðferðirnar til að lagfæra sambærilegar skemmdir annars staðar á landinu.