Orku- og veitugeirinn gæti þurft að undirbúa sig fyrir ný viðmið um öryggi 

Árlegur fundur og námsstefna borgaralegra yfirvalda almannavarna á Norðurlöndunum fór fram dagana 10. – 12.  september í Kuopio í Finnlandi. Fundinn sóttu yfirmenn og starfsmenn viðkomandi stofnana ásamt stjórnendum ýmissa samfélagslegra stofnana og lykilfólki úr atvinnulífi á Norðurlöndum.  Samorku var sérstaklega boðið til fundarins og Finnur Beck, framkvæmdastjóri sótti hann.  

„Það er augljóst að Norðurlöndin leggja nú um mundir mikla áherslu á viðbúnað og viðnámsþrótt sinna samfélaga gagnvart hvers konar áföllum“ segir Finnur. „Meðal umfjöllunarefna var staða Norðurlandanna í núverandi öryggissamhengi Evrópu, uppbygging viðbúnaðar og samfélagslegur viðnámsþróttur sem hryggjarstykki í allsherjaröryggi.“  

„Það er rík hefð fyrir miklu öryggi, bæði fyrir starfsmenn og tryggan rekstur í orku- og veitugeiranum. Undirbúningur og framkvæmd þess er hins vegar stöðugt til endurskoðunar og tekur mið af aðstæðum hverju sinni. Orku- og veitugeirinn gæti þurft að undirbúa sig fyrir ný viðmið um öryggi.“