1. október 2025 Samorka sækir evrópskt jarðhitaþing í Sviss Fulltrúi Samorku sækir Evrópska jarðhitaþingið – European Geothermal Congress – sem fram fer í Zurich í Sviss frá 6.-10. október n.k. Samtök jarðhitageirans í álfunni – European Geothermal Energy Council (EGEC) skipuleggja þingið sem búast má við að yfir 1200 manns sæki. Þátttakendur koma úr röðum stjórnenda og sérfræðinga fyrirtækja í þessum geira, úr hópi þeirra sem móta stefnu og setja reglur um nýtingu jarðhita, vísindafólk og aðrir haghafar. Ráðstefnugestir koma ekki aðeins frá Evrópu heldur einnig víðar að úr heiminum. Samorka er meðlimur í EGEC og með ráðningu starfsmanns með aðsetur í Brussel hefur verið lögð enn frekari áhersla á að efla þátttöku í starfi samtakanna. Ísland er í fremstu röð í heiminum í nýtingu og vinnslu jarðhita til húshitunar, orkuframleiðslu og annarra nota. Mikil tækifæri eru fyrir íslensk fyrirtæki vegna vaxandi áhuga á jarðvarmanýtingu í Evrópu. Aðild að EGEC skiptir líka máli nú þegar Evrópusambandið undirbýr t.d. aðgerðaáætlun um eflingu jarðvarma. Hún á að líta dagsins ljós snemma á næsta ári framkvæmdastjórn ESB hefur opnað almenna samráðsgátt vegna málsins. Nýting jarðhita verður líka í sviðsljósinu þegar Our Climate Future ráðstefnan verður haldin í Brussel þann 14. október n.k. Þar koma saman fulltrúar íslenskra stjórnvalda, Evrópusambandsins og síðast en ekki síst öflugur hópur fólks úr íslenska jarðhitageiranum til að ræða hvernig þessi græna orkulind getur hraðað orkuskiptum, aukið samkeppnishæfni Evrópu, stuðlað að því að tryggja orkuöryggi álfunnar og síðast en ekki síst að loftslagsmarkmið náist.