Ursula von der Leyen lagði áherslu á orkumál í stefnuræðu á Evrópuþinginu

Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Ursula von der Leyen, lagði áherslu á orkumál í stefnuræðu sinni „State of the Union“ í Evrópuþinginu þann 10. september. Hún sagði m.a. að lykillinn að lægra orkuverði væri að efla hreina orku sem framleidd er innan ESB. Þá væri afar brýnt að fjárfesta og nútímavæða flutnings- og dreifikerfi raforku í álfunni. Sambandið væri að undirbúa aðgerðir til að sú yrði raunin, m.a. að hraða leyfisveitingum.

„Við erum á réttri leið til sjálfstæðis í orkumálum en orkureikningar eru enn of háir og valda milljónum íbúa áhyggjum. Og orkukostnaður fyrirtækja er enn of hár,“ sagði forseti framkvæmdastjórnarinnar á Evrópuþinginu. Hún sagði kominn tíma til að aðildarríki ESB losuðu sig við rússneskt jarðefnaeldsneyti.  Í sumar setti sambandið fram áætlun um að hætta alfarið kaupum á rússnesku gasi og olíu fyrir lok ársins 2027. Rétt er að hafa í huga að tekjur af orkusölu eru afar mikilvægar fyrir stjórnvöld í Moskvu til að fjármagna innrásarstríðið Rússlands gegn Úkraínu.

Ursula von der Leyen lagði líka mikla áherslu á samkeppnishæfni í stefnuræðu sinni, ekki síst í tækni og iðnaði sem byggja á hreinni orku.  ESB er með í gangi margvíslega stefnumótun og aðgerðir til að hraða þeirri uppbyggingu. Forseti framkvæmdastjórnarinnar sagði líka að ESB væri á beinu brautinni að ná því markmiði að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um að minnsta kosti 55% árið 2030, miðað við losun árið 1990.

Ljóst er að orkuöryggi og sjálfstæði er mikilvægur liður í því sem Ursula von der Leyen kallaði „stund sjálfstæðis Evrópu.“  Hún sagði að Evrópubúar þyrftu að sjálfir að axla ábyrgð á sínu öryggi og vörnum ásamt því að hafa stjórn á þeirri tækni og orkulindum sem knýja áfram efnahags- og atvinnulíf álfunnar.

Mynd: ESB. Hér er hægt að lesa ræðuna í heild á ensku:

https://ec.europa.eu/commission/presscorner/detail/en/speech_25_2053

Read more: Ursula von der Leyen lagði áherslu á orkumál í stefnuræðu á Evrópuþinginu