Útgjöld til orkumála dragast saman um 16% 

Fjármálaráðherra boðaði aðhald í ríkisrekstri á kynningarfundi sínum á fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2026.

Gert er ráð fyrir að alls renni 0,7% af heildarútgjöldum ríkisins til orkumála, eða 11,6 ma. kr. Það er samdráttur upp á rúm 16% frá fyrra ári og dragast útgjöld til orkumála næstmest saman af öllum málaflokkum. Á þessu eru nokkrar skýringar sem taldar eru upp í fjárlagafrumvarpinu. 

Þar kemur fram að 225 m.kr. verði færðar af rekstrarframlögum og rekstrartilfærslum á fjármagnstilfærslur hjá Loftslags- og orkusjóði. Þetta eru fjárveitingar sem áður tilheyrðu Loftslagssjóði.

Helstu breytingar á fjárheimildum málaflokksins eru eftirtaldar:

  1. Framlög til Loftslags- og orkusjóðs lækka um 2.500 m.kr. í samræmi við fjármálaáætlun. Um er að ræða styrki til orkuskipta sem tóku við af kerfi skattaívilnana árið 2024. Í upphafi var gert ráð fyrir að til verkefnisins yrði varið 7.500 m.kr. árlega árin 2024 og 2025 en síðan lækkaði upphæðin í 5.000 m.kr. árin 2026 til 2030.
  2. Framlög til Loftslags- og orkusjóðs lækka um 150 m.kr. þegar þriggja ára tímabundnu átaki í jarðhitaleit lýkur en áframhaldandi stuðningur er við leit og nýtingu jarðvarma.
  3. Framlög til Loftslags- og orkusjóðs lækka um 75 m.kr. þegar tímabundnu átaki vegna grænna fjárfestinga lýkur.
  4. Framlög til niðurgreiðslna á húshitun hækka tímabundið um 400 m.kr. til að mæta halla á liðnum.