23. október 2024 BM Vallá og Kapp hlutu umhverfisviðurkenningar Umhverfisfyrirtæki ársins er BM Vallá en framtak ársins á sviði umhverfismála á KAPP. Fyrirtækin voru verðlaunuð á Umhverfisdegi atvinnulífsins sem fram fór í gær, 22. október. Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA, afhenti verðlaunin ásamt verðlaunahöfum fyrra árs. BM Vallá framleiðir hágæða byggingarvörur fyrir mannvirkjagerð, má þar helst nefna steinsteypu, forsteyptar húseiningar, hellur og múrvörur. Umhverfismál og sjálfbær nýting auðlinda er rauður þráður í starfsemi BM Vallá sem hefur sett sér það markmið að verða umhverfisvænasti steypuframleiðandi landsins með því að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum, efla hringrásarhugsun og stuðla að aukinni sjálfbærni. Markvisst er stefnt að því að starfsemi og steypuframleiðsla BM Vallár verði kolefnishlutlaus árið 2030. KAPP er tæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í kæliþjónustu, vélasmíði, innflutningi og þjónustu á tækjabúnaði fyrir sjávarútveg, fiskeldi og annan iðnað. Í 25 ár hefur fyrirtækið framleitt OptimICE® krapavélar fyrir sjávarútveg sem notaðar eru í bátum og skipum af nánast öllum stærðum við fjölbreyttar veiðar víða um heim. OptimICE® krapakerfið kemur í staðinn fyrir hefðbundinn flöguís. Krapaísinn er framleiddur úr sjóvatni eða saltvatni bæði um borð og í landvinnslu. Fljótandi krapaísinn umlykur fiskinn og kælir hann fljótt niður fyrir frostmark og heldur hitastiginu í kringum -0.5°C. Þannig helst hitastigið meðan á veiðiferðinni stendur, við löndun, við flutning til framleiðslu og til neytanda, án þess að frjósa. Hraðkælingin, sem er um 10x hraðari en kæling með flöguís, tryggir ferskleika og hámarksgæði afurðarinnar. Hillutíminn eykst um 5-7 daga. Hraðkælingin minnkar myndum baktería umtalsvert auk þess sem OptimICE® ískrapinn er framleiddur í lokuðu kerfi án snertingar við utanaðkomandi óhreinindi. Nú er komin ný krapavél, sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum, sem nýtir koldíoxíð sem kælimiðli í stað F-gasa með mjög háan hlýnunarmátt. Vélin er hönnuð og framleidd af KAPP ehf í höfuðstöðvum þess við Turnahvarf í Kópavogi. Nánari upplýsingar um verðlaunahafana má sjá á vef SA. Það er ljóst á þeim fjölda tilnefninga sem bárust inn til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins að umhverfis- og loftslagsmál eru órjúfanlegur hluti af daglegum rekstri og ákvarðanatöku fyrirtækja á Íslandi. Fjölmargar umsóknir bárust og fjöldi fyrirtækja vinna ötult starf á þessu sviði. Í dómnefnd Umhverfisverðlauna atvinnulífsins sitja formaður dómnefndar, Reynir Smári Atlason, CreditInfo, Elma Sif Einarsdóttir, Stiku umhverfislausnum og Jóna Bjarnadóttir, Landsvirkjun.