8. desember 2025 Ný handbók um öryggi og öryggismenningu Samorka, í samstarfi við Öryggisráð Samorku, hefur nú gefið út íslenska útgáfu af HOP-handbók (Human & Organizational Performance) fyrir aðildarfyrirtæki samtakanna og öll þau sem vinna með öryggi og rekstur innviða. Slys eiga sér sjaldnast eina orsök heldur eru samspil af mörgum ólíkum þáttum, þar á meðal hinum mannlega. HOP er ný nálgun á öryggi og öryggismenningu þar sem áhersla er lögð á að rýna aðstæður þar sem erfið vinna er unnin, að læra af því hvernig vinnan fer raunverulega fram og reyna þannig að fyrirbyggja alvarleg slys. Handbókin er öflugt verkfæri fyrir stjórnendur, millistjórnendur og þau sem vinna sjálf verkefnin á vinnustað. Það er von Samorku að bókin nýtist sem handbók bæði fyrir aðildarfyrirtæki Samorku en einnig í öðrum iðnaði og rekstri. Öryggi þeirra sem vinna fyrir og með orku- og veitufyrirtækjum skiptir okkur líka máli. Með þessari handbók leggjum við okkar af mörkum til að efla öryggismenningu á Íslandi. Sækja HOP handbókina
11. júlí 2025 ESB styrkir til öryggisrannsókna – tækifæri fyrir orku- og veitufyrirtæki Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur auglýst eftir umsóknum um styrki úr Horizon Europe á sviði öryggisrannsókna (security research). Alls eru 250 milljónir evra í boði fyrir fjölbreytt verkefni sem miða að því að efla öryggi og viðnámsþrótt innan aðildarríkja og samstarfsþjóða. Umsóknarfrestur rennur út 12. nóvember 2025. Meðal áhersluatriða styrkveitinganna eru: Vernd mikilvægra innviða (infrastructure protection) Netöryggi og stafrænt viðnám (cybersecurity) Viðnámsþróttur gagnvart hamförum og loftslagsáföllum (disaster resilience) Í ljósi aukinna áskorana tengdum netöryggi, veðurtengdum atvikum og vaxandi kröfum um samfellu í rekstri innviða, kunna þessi verkefni að opna tækifæri fyrir íslensk orku- og veitufyrirtæki. Þau gætu tekið þátt annaðhvort sem leiðandi aðilar eða í samstarfi við íslenska sérfræðinga eða evrópska samstarfsaðila. Samkvæmt upplýsingum á vef RANNÍS geta íslenskir aðilar tekið þátt í Horizon Europe á jafnréttisgrundvelli við aðra aðildaraðila EES, og njóta einnig aðstoðar RANNÍS við gerð umsókna og samstarfsleit. Nánari upplýsingar um úthlutunina má finna á vef Framkvæmdastjórnar ESB:EUR 250 million available for new projects on security research Sömuleiðis veitir RANNÍS ítarlegar upplýsingar og leiðbeiningar:Algengar spurningar um Horizon Europe á vef RANNÍS