Loftslagsmál

Í FREMSTU RÖÐ

LOFTSLAGSMÁL Í HNOTSKURN

Jarðvarmi og vatnsafl, vind- og sólarorka er umhverfisvæn orka – hún felur ekki eða að mjög takmörkuðu leyti í sér losun koltvísýrings og mengun umhverfisins.

Orkan er endurnýjanleg, orkulindin endurnýjar sig stöðugt þegar tekið er af henni ólíkt orku sem unnin er úr jarðefnaeldsneyti eins og kolum og olíu.

Eitt stærsta viðfangsefni mannkyns er baráttan gegn loftslagsbreytingum. Losun á koldíoxíði vegna brennslu á kolum, olíu og gasi fyrir raforkuframleiðslu, húshitun og í samgöngum er þar stærsti sökudólgurinn, á heimsvísu. Verkefni mannkyns er að draga úr þeirri brennslu.

Hér á landi er staðan mjög sérstök þar sem nánast öll raforka og húshitun eru byggð á endurnýjanlegum orkugjöfum, vatnsafli og jarðhita, og vindorkan að koma inn í myndina. Ísland er með fremstu þjóðum í nýtingu endurnýjanlegrar orku. Við búum hins vegar að gríðarlegum sóknarfærum á sviði orkuskipta í samgöngum. Með því að skipta um orkugjafa í samgöngum þar sem hægt er væri að koma í veg fyrir tæplega 20% af árlegum útblæstri gróðurhúsalofttegunda hér á landi.

Íslendingar hafa áður farið í gegnum orkuskipti – fyrst þegar rafvæðingin hófst og síðar með hitaveituvæðingunni. Myndbandið fer stuttlega yfir sögu fyrri orkuskipta og hvernig orku- og veitufyrirtæki hafa spilað þar lykilhlutverk og munu áfram gera með þriðju orkuskiptunum; að skipta yfir í vistvæna orkugjafa í samgöngum.

Framlag orku- og veitufyrirtækja til loftslagsmála from Samorka on Vimeo.

Raforkuframleiðsla á Íslandi skilar engum gróðarhúsalofttegundum út í andrúmsloftið. Í Evrópu er hlutfall gróðurhúsalofttegunda af raforkuframleiðslu allt að 80%.

Án endurnýjanlegrar orku væri CO2 losun Íslendinga töluvert meiri. Heildarlosun Íslands í dag er um 4,6 milljón tonn ár hvert og hefur verið á svipuðu róli allt frá árinu 1990. Ef hitaveitu nyti ekki við og við þyrftum að nota olíu til að hita húsin okkar, þá væri losunin tæp sex milljón tonn á ári. Ef rafmagn væri framleitt með öðrum hætti en með endurnýjanlegri orku, þá væri losunin um átta milljón tonn. Þar er stóriðja undanskilin.

Parísarsamkomulagið

Parísarsamkomulagið er sögulegt samkomulag 195 þjóða til að vinda ofan af hlýnun jarðar af völdum loftlagsbreytinga. Markmið Parísarsamkomulagsins er að halda hlýnun jarðar af mannavöldum undir 2°C og ná jafnvægi á milli losunar gróðurhúsalofttegunda og bindingar.

Í Parísarsamkomulaginu er í fyrsta sinn kveðið á um að öll ríki skuli bregðast við til þess að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda þar sem þau geti haft mögulega óafturkræf áhrif á samfélög manna og jörðina alla. Einnig er kveðið á um að ríkin eigi takast á við afleiðingar loftlagsbreytingar og tryggja umtalsvert fjármagn til umhverfisvænna lausna. Einnig á að aðstoða fátækari ríki við að draga úr losuninni. Samkomulagið var samþykkt í París í desember 2015 og undirritað af sendifulltrúum þjóðanna í New York í apríl 2016.

Hver þjóð setur sér markmið um að draga umtalsvert úr losun fyrir árið 2030.

Parísarsamkomulagið er lagalega bindandi samkomulag undir Loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna.

Hægt er að fræðast meira um Parísarsamkomulagið á vef utanríkisráðuneytisins.