Danir leggja áherslu á endurnýjanlega orku og samkeppnishæfni í forsæti ráðherraráðs ESB

Danmörk tók við formennsku í ráðherraráði Evrópusambandsins (Ráðinu) í dag 1. júlí og gegnir því hlutverki næstu sex mánuði, eða til áramóta. Danir fá þannig tækifæri til að móta stefnu ESB á lykilsviðum, þar á meðal í loftslags-, orku- og umhverfismálum. Danmörk hefur lengi verið leiðandi á sviði sjálfbærrar þróunar og endurnýjanlegrar orku. Dönsk stjórnvöld hyggjast því nýta formennskuna til að hraða orkuskiptum og grænu byltingunni innan Evrópu auk þess að leggja áherslu á að ESB standi við metnaðarfull loftslagsmarkmið.  Danir takast einnig á við mörg önnur viðfangsefni næstu sex mánuði í forsæti ráðherraráðsins og það gera þeir undir yfirskriftinni „A strong Europe in a changing world.“ 

Evrópumálaráðherra Danmerkur, Marie Bjerre, kynnir áherslur danskra stjórnvalda í forsæti ráðherraráðs ESB.

Ráðherraráðið er ein af helstu valdastofnunum ESB ásamt leiðtogaráðinu, Evrópuþinginu og framkvæmdastjórninni. Valdastaða ráðherraráðsins endurspeglast framar öðru í löggjafarvaldinu sem það fer með ásamt Evrópuþinginu. Ljóst er að stjórnvöld í Kaupmannahöfn vilja nota þetta forystuhlutverk sitt til að efla samkeppnishæfni Evrópu og tryggja jafnframt öryggi álfunnar í viðsjárverðum heimi. „Öflugri varnir Evrópu og að losna við íþyngjandi regluverk en vinna um leið áfram að orkuskiptum – þetta eru forgangsmál fyrir Danmörku meðan við erum í forsæti ráðherraráðsins,“ sagði Evrópumálaráðherra Danmerkur, Marie Bjerre, þegar hún kynnti áherslur danskra stjórnvalda næstu sex mánuði, á fréttamannfundi þann 19. júní s.l. Fréttaskýrendur segja að Danir vilji ekki hvika frá markmiðum Græna sáttmála ESB (Green Deal). Þeir telji að sjálfbærni og samkeppnishæfni geti fyllilega farið saman en meðal aðildarríkja ESB eru uppi mismunandi sjónarmið og sambandið er að reyna að finna jafnvægi milli þeirra.

Höfuðstöðvar ráðherraráðs ESB í Brussel þar sem Danir hafa nú tekið við formennsku

Þann 2. júlí er búist við að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kynni löggjafartillögu sína um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda innan Evrópusambandsins um 90% miðað við árið 1990.   Fréttaskýrendur og sérfræðingar telja að þetta markmið hafi veruleg áhrif á stefnumótun og atvinnulíf innan Evrópusambandsins, m.a. ákvarðanir um fjárfestingar stórra fyrirtækja og einnig sprotafyrirtækja. Hagsmunasamtök á borð við Nordenergi, sem Samorka er aðili að, hafa lagt áherslu á að staðið verði við markmiðið og sendu m.a. Wopke Hoekstra umhverfismálastjóra ESB bréf þess efnis. 

„Til að Danmörk og Evrópa í heild verði ekki eins háð jarðefnaeldsneyti og til að styrkja samkeppnishæfni þá eru grænu orkuskiptin lausnin, ekki vandamálið,“ sagði Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur nýlega í viðtali við Newsweek tímaritið. „Öflugri framleiðsla á okkar eigin hreinu orku og fjárfestingar í orkuinnviðum eru grundvallarforsendur til að styrkja álfuna okkar. Um leið minnkum við losun gróðurhúsaloftegunda og tökumst á við loftslagsbreytingar,“ bætti danski forsætisráðherrann við. Hún og aðrir danskir ráðherrar munu reglulega beita sér í að vinna stefnumálum Dana fylgi innan ESB og þess má einnig geta að orkumálastjóri ESB er nú danskur, Dan Jørgensen. 

Evrópusambandið hyggst hætta að kaupa rússneskt gas fyrir árslok 2027 sem eykur enn þrýsting á að efla orkuframleiðslu innan álfunnar. Þá leggur ESB áherslu á að styrkja verulega flutnings- og dreifikerfi raforku. Eurelectric, Evrópusamtök rafiðnaðarins,  benda einnig á að Danir sjái rafvæðingu sem leið til að tryggja orkuöryggi, samkeppnishæfni og orkuskipti. Samorka er aðili að Eurelectric. 

Tákn formennsku Dana.

Ísland er vissulega ekki í Evrópusambandinu en í gegnum samninginn um evrópska efnahagssvæðið (EES) innleiða íslensk stjórnvöld löggjöf og regluverk ESB um orku, loftslags og umhverfismál. Áherslur Dana í forsæti ráðherraráðsins skipta því máli fyrir starfs- og rekstrarumhverfi íslenskra orku- og veitufyrirtækja og atvinnulífsins í heild. Samorka mun því fylgjast grannt með hvernig dönskum stjórnvöldum miðar í að ná markmiðum sínum meðan á formennsku þeirra stendur. Fulltrúi Samorku í Brussel er með starfsaðstöðu á Norrænu orkuskrifstofunni en þar eru einnig fulltrúar sambærilegra samtaka í Danmörku – Green Power Denmark – og stórra danskra fyrirtækja á sviði endurnýjanlegrar orku.