Orkuskipti á hafi möguleg fyrir árið 2050
Mögulegt er að orkuskipti innlenda skipaflotans verði um garð gengin fyrir árið 2050. Til þess að það geti gerst þarf að tryggja framleiðslu og innviði fyrir rafeldsneyti og öflug stefnumótun að vera til staðar frá stjórnvöldum, með stuðningi við fjárfestingar, skattalegum hvötum og skýrum kröfum um vaxandi hlutfall grænnar orku í stað jarðefnaeldsneytis.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu sem norska ráðgjafafyrirtækið DNV gerði fyrir Samorku, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Faxaflóahafnir.
Fram kemur í skýrslunni að þrátt fyrir að rafhlöður séu ávallt besti kosturinn í nýtingu á hreinni orku, þá muni þær fyrst og fremst nýtast þar sem vegalengdir eru stuttar. Þegar kemur að stærri skipum verði útgerðir þeirra að reiða sig á rafeldsneyti eins og til dæmis ammoníak, vetni eða metanól. Reiknað er með að tæknin til að nýta rafeldsneyti á skip verði aðgengileg, í mismiklum mæli, í kringum árið 2030. Ráðandi orkugjafar verði að öllum líkindum ammóníak og metanól. Til að framleiða það rafeldsneyti sem þarf til að klára orkuskipti í haftengdri starfsemi er áætlað að árlega þurfi um 3.500 GWh (3.5 TWh) af raforku miðað við eldsneytisspá Orkustofnunar fyrir árið 2050. Það er tæplega 20% þeirrar raforku sem framleidd er í dag.
Páll Erland framkvæmdastjóri Samorku: „Niðurstöður skýrslunnar sýna er að orkuskipti á hafi eru möguleg og það er ánægjuleg framtíðarsýn að geta keyrt skipaflota framtíðarinnar á grænni orku sem unnin er úr vatnsafli, jarðvarma og vindi. Það er meira spurning um hvenær tæknin leyfir það og hversu hratt við náum árangri í þessu stóra verkefni. Auk þess sýna niðurstöðurnar að orkuskipti á hafi kalla á að næg græn orka sé til og traustir innviðir séu til staðar um allt land, eins og fyrir önnur orkuskipti.“
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS: „Það er mjög jákvætt að vera komin með ítarlega greiningu á mögulegum orkuskiptum á hafi – hver staðan er, hvar tækifærin liggja og, ekki síst, hvaða hindranir mæta okkur. Það er ekki síður gagnlegt og mikilvægt að vinna þetta á breiðum grundvelli. Það er einmitt svona sem þarf að vinna þessi mál – á breiðum grundvelli, með samstarfi stjórnvalda og atvinnulífs.“
Gunnar Tryggvason, sviðsstjóri viðskipta hjá Faxaflóahöfnum: „Orkuskipti á hafi eru stórt viðfangsefni og skýrslan vísar okkur veginn inn í næstu skref. Niðurstöður hennar eru raunsæisákall um að grípa þurfi til aðgerða strax til að ná 10% markmiðinu um grænt eldsneyti í haftengdri starfsemi árið 2030.“
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, ávarpaði fundinn og fagnaði góðu samstarfi stjórnvalda og atvinnulífs við gerð skýrslunnar. Í niðurstöðum hennar væru nokkrar sviðsmyndir sem hægt væri að rýna og vinna áfram með í því stóra og spennandi viðfangsefni sem orkuskipti eru.
Meðfylgjandi er skýrslan í heild sinni þar sem sjá má ítarlegar forsendur og niðurstöður. Einnig er íslensk þýðing á inngangi og stuttri samantekt.
Decarbonization Icelandic Maritime Sector
Upptaka af fundinum: