14. febrúar 2018 Hvað verður um starfið þitt? Hvað verður um starfið þitt? er yfirskrift Menntadags atvinnulífsins sem verður haldinn í Hörpu fimmtudaginn 15. febrúar kl. 8.30-12. Dagurinn, sem nú er haldinn í fimmta sinn, er að þessu sinni tileinkaður hlutverki skólakerfis og atvinnulífs við að búa fólk undir þær tæknibreytingar sem standa yfir. Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök hafa hvatt fyrirtæki til dáða til að mennta starfsfólk sitt, til dæmis með árlegu vali á menntafyrirtæki ársins. Fjölmörg íslensk fyrirtæki eru til fyrirmyndar þegar kemur að menntun starfsmanna sinna. Menntafyrirtæki síðustu ára – Samskip, Marel, Icelandair hótel og Alcoa fjarðaál – eru þar fremst meðal jafningja. Þann 15. febrúar mun síðan enn eitt fyrirtækið bætast í hóp þessara fyrirmynda í atvinnulífinu. Enn eru nokkur sæti laus. Hægt er að sjá dagskrá Menntadagsins og skrá sig á síðu SA. Aðgangur er ókeypis og öllum opinn.