Vindorka

Vindorka er sjálfsögð viðbót við þá endurnýjanlegu orkukosti sem nýttir eru í dag og er uppbygging hennar hér á landi tækifæri til að uppfylla þarfir þjóðarinnar fyrir græna orku á fjölbreyttari máta en nú er gert. Mikilvægt er að um vindorku sé gott lagaumhverfi sem liðkar fyrir hagnýtingu vinds í þágu samfélagsins en horfir um leið til umhverfisins. Þannig verður Ísland áfram í forystuhlutverki í nýtingu grænnar orku. 

Í umfjöllun um vindorku í Orkustefnu Íslands til 2050 kemur eftirfarandi fram: „Fjölbreytni í orkuöflun stuðlar að bættu orkuöryggi og sveigjanleika orkukerfisins. Þó að Ísland búi enn yfir óbeisluðu vatnsafli og jarðhita, er skynsamlegt að auka fjölbreytni í orkugjöfum með hagnýtingu vindorku og annarra nýrra endurnýjanlegra orkukosta fyrir raforkuvinnslu.“ 

Á Íslandi eru aðstæður mjög góðar til orkuframleiðslu úr vindi. Vegna hagstæðra vindskilyrða er kostnaður við hverja orkueiningu minni. Það getur veitt Íslandi samkeppnisforskot nú þegar vindorka verður sífellt hagkvæmari eftir því sem tækninni fleygir fram. Að auki fellur framleiðsla vindorku vel að annarri orkuframleiðslu. Þannig er hægt að framleiða rafmagn með vindmyllum þegar vindur blæs og draga úr nýtingu vatnslóna á meðan og nýta lónin þegar ekki blæs. Virkur heildsölumarkaður með rafmagn sem er í örri þróun hér á landi mun gegn lykilhlutverki við að ná jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar með tilkomu nýrra og óstöðugri orkukosta eins og vinds og birtu. Með því að nýta vindorku á sjálfbæran hátt verður áfram hægt að stuðla að samkeppnishæfni Íslands til framtíðar. 

Vindorka hefur þá sérstöðu umfram vatnsafla og jarðvarma að hægt er að reisa vindmyllur og vindorkuver nánast hvar sem er út frá tæknilegum sjónarmiðum. Þau umhverfisáhrif sem skapast af sjónmengun eru með öllu afturkræf og eingöngu bundinn við þann tíma sem nýtingin stendur yfir.  

Samorka hefur lagt áherslu á að regluverk um orkunýtingu og þar með talið vindorkunýtingu sé skilvirkt og í því skyni kallað eftir því að lög um verndar- og orkunýtingaráætlun (rammaáætlun) verði lögð af. Sé horft til vindorkumannvirkja sérstaklega eru engin sjónarmið sem réttlæta að uppbygging í vindorku fari fram í gegnum gríðarlega umfangsmikla miðstýringu með aðkomu Alþingis, frekar en gildir um önnur mannvirki eða stóriðju. Þannig eru umhverfisáhrif vindmylla hvorki meiri, né varanlegri en t.d. af uppbyggingu í iðnaði, fiskeldi eða ferðamannaiðnaði. Hvers vegna sérreglur þurfi að gilda um orkunýtingu er illskiljanlegt.  

Skilvirkara regluverk mundi einnig auðvelda nýjum og minni framleiðendum að koma inn á markaðinn, sem stuðlar að aukinni samkeppni. Það er vel þekkt staðreynd að virk samkeppni skilar sér í lægra verði og betri þjónustu. Virk samkeppni er einnig lykilforsenda nýsköpunar og hagvaxtar. Það er engin ástæða til að ætla annað en að aukin samkeppni á orkumarkaði, þ.m.t. með innkomu erlendra aðila í orkuframleiðslu, muni ekki skila sér til allra þeirra fyrirtækja og neytenda sem þurfa á rafmagni að halda, dag frá degi.  

Að mati Samorku er eðlilegt að vindorkukostir séu afgreiddir í gegnum skipulagsferla sveitarfélaga. Í þeirri vinnu er aðkoma almennings og hagsmunaaðila tryggð og með mati á umhverfisáhrifum er tryggt að neikvæð umhverfisáhrif séu lágmörkuð og framkvæmdin í góðu samræmi við umhverfissjónarmið.  

Samorka tekur undir eftirfarandi áherslur í orkustefnu fyrir Ísland: „Nauðsynlegt er að hafa öfluga stjórnsýslu sem getur uppfyllt sínar skyldur með skilvirkum hætti og styðji þannig við þarfir samfélagsins er varða orkumál. Ferli leyfisveitinga þarf að tryggja að aðilar uppfylli kröfur um leið og það er einfalt og skilvirkt þannig að tímafrestir séu hæfilegir í samanburði við það sem best gerist í þeim löndum sem við miðum okkur gjarnan við“. Að mati Samorku stefnir ekki í að þessi markmið orkustefnu um einfalt og skilvirkt regluverk verði uppfyllt. 

Meira efni Samorku um vindorku:  

Vindorka: Þrautreynd og umhverfisvæn grein eftir Lovísu Árnadóttur á visir.is, 4. september 2024 

Spurt og svarað um vindorku  

Hlaðvarpsþáttur Samorku um vindorku