112.765.594 ástæður til að elska hitaveitur

„Pabbi, það kemur ekkert heitt vatn úr krananum!“ sagði sonur minn við mig í töluverðri geðshræringu þegar hann átti að þvo hendurnar fyrir svefninn, fyrsta kvöldið sitt í heimsókn til heimalands móður sinnar. Þar vorum við stödd í Perú, landi þar sem heimsklassa jarðvarmaauðlind er til staðar – en skrefið hefur ekki verið tekið að fara í stórfellda nýtingu á henni.

Besta tæknilega lausnin

Fyrir okkur sem lifum og hrærumst í orku- og veitumálum er það oft sérstakt að upplifa hversu litla athygli og umræðu það fær núorðið hversu mikil lífsgæði nýting jarðvarmaauðlindarinnar færir Íslendingum. Hérlendis eru rúmlega 90% híbýla á Íslandi kynt með hitaveitu sem byggir á beinni nýtingu jarðhita, en einnig eru starfræktar nokkrar sem nota raforku sem orkugjafa. Þannig er nær öll húshitun á Íslandi byggð á endurnýjanlegum orkugjöfum. Þessi staða sem við búum við á Íslandi er e-ð sem aðrar þjóðir dreymir um að ná. Í Hollandi er til dæmis framundan risastórt átak í að byggja upp nýtingu jarðhita til húshitunar. Þegar Hollendingar leita sér fyrirmyndar, sérþekkingar og almennt aðstoðar við verkefnið, þá leita þeir hingað – til okkar.

Hagstæða lausnin fyrir heimili og fyrirtæki

Húshitun með jarðhita er ekki bara almennt viðurkennt sem besta verkfræðilega lausnin í þeim geira, heldur er hún líka ákaflega hagstæð fyrir heimili og fyrirtæki. Ef við berum til dæmis saman húshitunarkostnað í höfuðborgum á Norðurlöndum kemur í ljós að hann er afgerandi lægstur á Íslandi. Þar er kostnaðurinn hérlendis að meðaltali þrefalt lægri en í öðrum höfuðborgum á Norðurlöndum.

Lífsgæði og atvinnusköpun

Annað umkvörtunarefni barnanna minna þegar við vorum í Suður-Ameríku var að komast ekki í sund, því börnin eru vön því að geta valið úr 10 frábærum og heitum sundlaugum um helgar. Þegar heim var komið var það eitt fyrsta verkið að fara í Lágafellslaugina. Auk sundlauganna okkar frægu hefur undanfarin ár verið mikil uppbygging hringinn í kringum landið hjá ferðaþjónustufyrirtækjum sem byggja á nýtingu heita vatnsins. Má þar t.d. nefna Bláa lónið, Sjóböðin á Húsavík, Bjórböðin á Árskógssandi, Vök Baths í Fljótsdalshéraði og Fontana í Bláskógabyggð. Þá má ekki gleyma hátæknifyrirtækjunum okkar sem nýta heita vatnið til ræktunar í gróðurhúsum, fiskeldis, framleiðslu á hátækni lækninga og snyrtivörum og alls kyns atvinnusköpunar.

Risastórt framlag í loftslagsmálum

Mér telst til að ég sé kominn með sjö ástæður til að elska hitaveitur. Sem þýðir að mig vantar 112.765.587 ástæður, erf ég ætla að ná því sem boðað var í titli greinar minnar. Það næst með því að skoða hversu mikið hitaveiturnar spara okkur í losun gróðurhúsalofttegunda. Húshitun (og rafmagnsframleiðsla) með endurnýjanlegum orkuauðlindum er langstærsta framlag Íslands í loftslagsmálum. Samkvæmt tölum frá Orkustofnun er uppsafnaður sparnaður Íslendinga í losun gróðurhúsalofttegunda í gegnum árin, með því að notast við endurnýjanlega orku til húshitunar í stað jarðefnaeldsneyta, 112.765.587 tonn. Til samanburðar við þessi 112 milljón tonn, þá má nefna að árlega losun frá landbúnaði á Íslandi er 0,6 milljón tonn.

Förum vel með auðlindina

Þessi árangur er ekki sjálfsagður. Það var og er gríðarlega kostnaðarsamt og flókið verkefni að byggja upp og viðhalda íslenska hitaveitukerfinu. Sú staðreynd kallar á að við kunnum að meta heita vatnið og hitaveiturnar og förum sparlega með þessa verðmætu auðlind. Þar er margt sem við getum öll gert. Á heimasíðu Veitna má t.d finna mörg góð hollráð um heitt vatn:

– Berum saman okkar notkun við meðalnotkun sambærilegs heimili og skoðum hvernig við getum nýtt heita vatnið sem best.
– Látum fagmann stilla hitakerfið.
– Notum lofthitastýrða ofnloka til að jafna innihitann.
– Förum yfir þéttleika og einangrun glugga og hurða.
– Lokum gluggum þegar kalt er úti.
– Förum yfir hitakerfi hússins og jafnvægisstillum þegar kólna fer í veðri.

Ég lofaði 112.765.594 ástæðum til að elska hitaveitur og vona að ég hafi sýnt fram á það. Þær eru samt miklu fleiri. Ef þið höfðuð nb. gaman af þessari grein minni þá bendi ég á næstu grein mína: 320.680.342 ástæður til að elska endurnýjanlega raforku!

 

Eftir Sigurjón Norberg Kjærnested, forstöðumann fagsviða hjá Samorku. Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 29. júlí 2020.

One thought on “112.765.594 ástæður til að elska hitaveitur

Comments are closed.