Leggjum línurnar fyrir framtíðina

Í dag, miðvikudaginn 9. desember fór rafrænn fundur Landsnets um framtíð flutningskerfisins í loftið á www.landsnet.is/leggjumlinurnar . Þar hafa verið tekin saman fróðleg erindi og umræður um áskoranir í uppbyggingu flutningskerfis raforku og viðbrögð og eftirmála óveðursins sem skall á í desember í fyrra.

Í einu myndbandinu er farið yfir þá viðbragðsáætlun sem fer í gang hjá Landsneti þegar vitað er að óveður mun skella á. Þar má sjá áhrifin af því þegar kerfi af þessari stærðargráðu verða fyrir verulegum áföllum.

Í hringborðsumræðum um orkuöryggi og græna framtíð kom fram sú skoðun Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, að óveðrið sýndi að veruleg þörf er á að hraða uppbyggingu orkukerfisins. Nú liggi fyrir hundruð tillagna um brýn verkefni sem ráðast þarf í. Þá skipti þessi uppbygging einnig máli hvað varðar markmið um kolefnishlutleysi og græna framtíð í orkumálum. Með forsætisráðherra í umræðunum eru Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs og Sigrún Jakobsdóttir, stjórnarformaður Landsnets.

Í hinni hringborðsumræðunni er fjallað um uppbyggingu flutningskerfis og innviðauppbyggingu. Þar áréttar Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, að ólíðandi sé að brýnar framkvæmdir sem lúti að almannahagsmunum skuli stranda á skipulagsmálum. Ástandið sem skapaðist í óveðrinu sýni að átak sé nauðsynlegt. Ásamt Aldísi í umræðunni eru þátttakendur þau Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets. Þar ræðir ráðherra um að stór og mikilvæg verkefni hafi tekið of langan tíma í uppbyggingu, verið sé að skýra verkferla og flýta sumum þeirra og augljóst sé að fjárfestingarþörfin er mikil.