Upprunaábyrgðir: Lóð á loftslagsvogarskálar

UPPRUNAÁBYRGÐIR: LÓÐ Á LOFTSLAGSVOGARSKÁLAR

Á Íslandi er rafmagn framleitt með endurnýjanlegum hætti. Þetta er staðreynd, sem þó skolast stundum til þegar uppgjör vegna upprunaábyrgða raforku, stundum kölluð græn skírteini, er birt einu sinni á ári. Því er rétt að skerpa aðeins á hvað upprunaábyrgðir eru, hver tilgangur þeirra sé og af hverju Ísland tekur þátt í kerfinu um þær.

Hvað eru upprunaábyrgðir og hvernig virka þær?

Upprunaábyrgðir raforku eru liður í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Í Evrópu hefur verið gripið til ýmissa ráða til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og auka hlut endurnýjanlegrar orku. Til dæmis ívilnanir og skattlagning, langtíma tvíhliða samningar við raforkuframleiðendur og svo vottunarkerfi um uppruna raforku, eða upprunaábyrgðir. Með upprunaábyrgðum er græni þáttur framleiðslunnar gerður að sjálfstæðri söluvöru óháð því hvort kaupandinn fái þetta tiltekna græna rafmagn í innstungurnar sínar. Það er til þess að hægt sé umbuna þeim sem framleiða græna orku óháð því hvar þeir eru staðsettir því það skiptir ekki máli í samhengi loftslagmála; það er sama hvaðan gott kemur.

Fjárhagsleg umbun = arðbærari hrein orka

Með því að beina fjármagninu til þeirra sem framleiða orku með endurnýjanlegum hætti verður sú orka arðbærari og getur frekar keppt við orku sem framleidd er með jarðefnaeldsneyti, sem hingað til hefur verið ódýrari í framleiðslu. Raforkunotendur í Evrópu hafa kannski takmarkaðan aðgang að endurnýjanlegri orku í sínu heimalandi en geta þá stutt við framleiðslu á hreinni orku með því að borga aukalega í hverjum mánuði. Hér fara því saman hagsmunir græna raforkuframleiðandans og græna raforkukaupands.

Sjái raforkunotandi ávinning í því að vísa í að hann noti rafmagn sem framleitt er á umhverfisvænan hátt getur hann vottað það með opinberum hætti með því að kaupa upprunaábyrgð. Rétt eins og með aðrar umhverfisvottanir þarf að greiða sérstaklega fyrir vottun á uppruna raforku. Engin kvöð er að kaupa slíka vottun; kerfið er valfrjálst fyrir fyrirtæki og einstaklinga.

Verðmæti orkunnar hámörkuð

Hreinleiki orkunnar okkar eru verðmæti og auðlind út af fyrir sig. Kerfið um upprunaábyrgðir setur verðmiða á það. Ísland hefur augljósa hagsmuni af því að hámarka verðmæti hreinu orkunnar sem hér er framleidd og það markmið næst betur með því að selja þær upprunaábyrgðir, sem ekki seljast hér á landi, á alþjóðlegum markaði.
Það skiptir máli fyrir heiminn allan að á Íslandi sé framleidd græn orka og því eðlilegt að við njótum ávinnings af því.

Fjárhagslegur ávinningur Íslands er töluverður í þessu kerfi. Út frá markaðsvirði skírteinanna getur upphæðin sem íslenskir raforkuframleiðendur fá numið frá 0,5 – 5,5 milljörðum á ári. Árið 2018 voru hreinar tekjur af sölu íslenskra upprunaábyrgða í kringum 800 – 850 milljónir króna. Þar sem raforkuframleiðendur hér á landi eru að langstærstum hluta í eigu ríkisins hefur íslenskt samfélag beinan ávinning af sölu upprunaábyrgða og þessar umtalsverðu tekjur geta hjálpað til við að halda orkuverði hér lágu.

Ávinningur fyrir íslensk fyrirtæki

Upprunaábyrgðir fylgja með í raforkuverði til heimila á Íslandi og fyrirtækja á almennum markaði og ættu fleiri fyrirtæki að skoða hvers konar ávinning það gæti fært þeim á alþjóðlegum markaði. Vegna þátttöku okkar í kerfinu fá íslensk fyrirtæki aðgang að innlendum upprunavottunum, sem getur gefið samkeppnisforskot í heimi þar sem krafan um sjálfbæra virðiskeðju verður sífellt háværari. Fyrirtæki á Íslandi gætu ekki nýtt sér hreinleika orkunnar til að vekja athygli á sinni vöru nema með þátttöku í kerfinu um upprunaábyrgðir, því vottunina þarf til.

Ávinningur fyrir loftslagið

Kerfið um upprunaábyrgðir hefur engin áhrif á loftslagsmarkmið Íslands eða annarra landa, enda einungis hugsað til þess að búa til auka fjármagn til þeirra sem framleiða endurnýjanlega orku. Þetta fjármagn getur skipt sköpum fyrir fjárfestingar í nýjum umhverfisvænum orkukostum og hjálpar því til við að koma fleiri slíkum á koppinn. Og það skilar árangri. Upprunaábyrgðir eiga þátt í því að hlutfall endurnýjanlegrar orku í Evrópu fer hækkandi. Það eru góðar fréttir fyrir okkur öll.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. nóvember 2019