Samtökin

Samorka eru samtök orku- og veitufyrirtækja á Íslandi.

Samtökin voru stofnuð árið 1995 við samruna Sambands íslenskra hitaveitna (stofnuð 1980) og Sambands íslenskra rafveitna (stofnuð 1942). Innan samtakanna starfa fráveitur, hitaveitur, vatnsveitur, raforkuframleiðendur, raforkusalar og flutnings- og dreifingarfyrirtæki raforku. Ýmis fyrirtæki og stofnanir sem tengjast orku- eða veitufyrirtækjum með einhverjum hætti eru aukaaðilar að Samorku.

Við hjá Samorku viljum starfrækja trúverðugan, fræðandi og jákvæðan vettvang um starfsemi orku- og veitufyrirtækja. Við viljum safna upplýsingum, greina þær og miðla þeim til almennings á aðgengilegan og áhugaverðan hátt. Hjá Samorku starfa sérfræðingar í málefnum orku- og veitumála og unnið er faglegt starf á þeim vettvangi með aðildarfyrirtækjum, stjórnvöldum og öðrum sem að því koma.

Á vettvangi Samorku starfar fjöldi fagráða, nefnda og hópa. Má þar nefna fagráð fyrir málefni fráveitna, hitaveitna, raforku og vatnsveitna, umhverfisráð, ráðgjafaráð orkufyrirtækja, öryggisráð, samstarfshóp um kynningarmál, vinnumarkaðsnefnd, þjónustuhóp, rafbílahóp, innkaupahóp, spennahóp, mælahóp, snjallkerfahóp, gæða- og skjalastjórahóp o.fl.

Samorka hefur unnið fjölmörg sameiginleg verkefni s.s. Handbækur hita- og vatnsveitna, Tæknilega tengiskilmála raforkudreifingar; Reikningsskilahandbók; leiðbeiningar um innra eftirlit fyrir raf- og vatnsveitur o.fl.

Samorka annast sameiginlegt fundahald, ráðstefnur og samkomur.

Endurmenntun og menntun starfsmanna aðildarfélaga er mikilvægur þáttur starfseminnar. Fagnámskeið í sérhæfðum störfum veitufólks eru haldin reglulega, ýmist beint á vegum samtakanna eða í samvinnu við aðra.