Þróun fráveitu Starfsemi fráveitu er í stöðugri þróun og má þar til dæmis nefna að hérlendis eru notaðar margar mismunandi lausnir við hreinsun skólps, til að mynda mismunandi útfærslur af vélrænni hreinsun skólps og svo eru einnig notaðar náttúrulegar lífrænar lausnir. Þá má einnig nefna uppbyggingu „náttúrulegrar fráveitu“, eða blágrænna ofanvatnslausna, sem fela í sér að nýta regnvatn og annað ofanvatn á umhverfisvænan og staðbundinn hátt. Þeirra á meðal má nefna græn þök, tjarnir, svelgi og regngarða, en þessar útfærslur á fráveitu auka vægi gróðurs og vatns í þéttbýli.