Rammaáætlun

Upphafleg markmið laga um verndar- og orkunýtingaráætlun („rammaáætlun“) voru að sætta mismunandi sjónarmið með því að leggja faglegt mat á hvaða orkukosti landsins eigi að nýta til að uppfylla þarfir samfélagsins fyrir orku og verðmætasköpun og hvaða orkukosti eigi að fara í vernd. Samorka telur ljóst að markmiðin hafi ekki náðst og telur farsælast að lög um verndar- og orkunýtingaráætlun verði lögð af.  

Í lögum um rammaáætlun kemur fram að markmið þeirra sé „að tryggja að nýting landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati þar sem tekið er tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja, hagkvæmni og arðsemi ólíkra nýtingarkosta og annarra gilda sem varða þjóðarhag, svo og hagsmuna þeirra sem nýta þessi sömu gæði, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi“. Enn fremur kemur fram að markmið laganna er að „langtímahagsmunir séu hafðir að leiðarljósi og þjóni þannig markmiðum um sjálfbæra þróun. Það eru því ekki eingöngu hagsmunir núlifandi kynslóðar sem skulu hafðir að leiðarljósi heldur ekki síður hagsmunir komandi kynslóða af sjálfbærri og skynsamlegri nýtingu þeirra auðlinda sem þarf til orkuvinnslu.“ Þessi markmið hafa ekki náðst. 

Samtökin hafa bent á að lagaskilyrði um verndar- og orkunýtingaráætlun hafi ekki verið uppfyllt, því faghópar sem áttu að fjalla um efnahags- og samfélagslega þætti luku ekki störfum og vantaði þær forsendur inn í þá niðurstöðu verkefnastjórnar. Þar með er alvarlegt ójafnvægi milli mats á orkukostum hvað varðar verndargildi náttúru samanborið við jákvæða efnahags- og samfélagslega þætti vegna nýtingar í þriðja áfanga rammaáætlunar. Ýmsir aðrir faglegir ágallar eru á ferlinu. Þá hefur afmörkun landsvæða friðunar í kjölfar síðustu rammaáætlunar valdið réttaróvissu, sem hugsanlega skapar ríkinu skaðabótaskyldu. Á vormánuðum 2024 felldi Hæstiréttur úr gildi friðlýsingu vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum fyrir orkuvinnslu og má leiða að því líkum að aðrar friðlýsingar á grundvelli rammaáætlunar hafi takmarkað gildi.  

Rammaáætlun á rætur sínar að rekja til ársins 1999. Umgjörð og staða orkumála hér á landi sem erlendis er allt önnur en hún var þegar vinna hófst við 1. áfanga rammaáætlunar árið 1999 og grundvallarbreytingar hafa orðið í áherslum Íslands og annarra ríkja í loftslagsmálum frá því að rammaáætlun var færð í núverandi horf með lögum nr. 48/2011. Löggjöf, markmið hennar og framkvæmd verður á hverjum tíma að skoða í ljósi annarrar samfélagsþróunar. 

Í orkustefnu til ársins 2050 kemur fram að eitt af meginmarkmiðum orkustefnu er að tryggja jafnvægi framboðs og eftirspurnar á orkumarkaði og þar með orkuöryggi. Framboð orku þarf að geta annað vaxandi eftirspurn vegna orkuskipta, tækniþróunar og fólksfjölgunar, sem og eðlilegrar þróunar fjölbreyttrar starfsemi um land allt, enda er aðgengi að orku grundvöllur að verðmætasköpun í atvinnulífinu og forsenda jákvæðrar byggðaþróunar og búsetuskilyrða. Þannig hafa ýmsar breytingar orðið í samfélaginu sem kalla á aukna uppbyggingu í grænni orku, frá því sem var um síðustu aldamót.  

Á þeim 13 árum sem liðin eru frá því að núgildandi lög voru sett hefur ein ný virkjun sem komist hefur í nýtingarflokk verið gangsett. Af því má ráða að rammaáætlun flækir og lengir leyfisveitingar- og framkvæmdaferli sem nú þegar er langt og strangt og háð fjölda umsókna og leyfisveitinga áður en virkjun kemst í gagnið. 

Eitt af meginmarkmiðum rammaáætlunar var að ná sátt um orkuframkvæmdir og nýtingu og vernd landsins. Fyrstu árin eftir lögfestingu rammaáætlunar voru vonir bundnar við að sátt næðist um framkvæmd hennar og markmið, en hafa ber í huga að á sama tíma var staðan í orkubúskap þjóðarinnar allt önnur en hún er í dag. Orkuskipti voru ekki komin á dagskrá og einfaldlega ekki til umræðu á þeim tíma. Þá liggur fyrir að í því mati á orkukostum sem fram fer hjá verkefnisstjórn og faghópum hefur hingað til ekki farið fram neitt mat á orkuþörf þjóðarinnar né hvernig henni skuli mætt.   

Meira efni um rammaáætlun:

Rætt um rammann, hlaðvarpsþáttur Samorku. Gestir: Harpa Pétursdóttir forstöðukona nýrra orkukosta hjá Orkuveitunni og Jóna Bjarnadóttir framkvæmdastjóri samfélags og umhverfis hjá Landsvirkjun.